146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[17:48]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Mig langar að spyrja aðeins nánar út í orð hv. þingmanns um áætlun um línulagnir, sem ég hygg að ég og hv. þingmaður séu álíka mikið áhugafólk um; kannski bara til að hossa sjálfum mér og vekja athygli á því að ég er hér inni með fyrirspurn á hæstv. ráðherra um stefnu stjórnvalda í uppbyggingu flutningskerfis raforku. Samkvæmt raforkulögum frá 2003 hefur ráðherra borið að leggja slíka stefnu fram á þingi á fjögurra ára fresti, sem aldrei hefur verið gert.

Eins og ég skildi hv. þingmann þá talar hún fyrir því að það þurfi að horfa aðeins út fyrir akkúrat bara virkjunarkostina, það þurfi að horfa heildrænt á málið. Það var kannski rauði þráðurinn í máli mínu hér fyrr í þessari umræðu. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann beint hvort hún telur að við séum kannski komin á þann stað að við þurfum aðeins að staldra við, þurfum að fara að horfa á raforkukerfið, hvernig við ætlum að koma orkunni frá þeim virkjunum sem mögulega verður farið í, og kannski ekki síst hvernig við ætlum að nýta orkuna. Það skiptir vissulega máli líka.

Hv. þingmaður er formaður umhverfis- og samgöngunefndar, þar sem ég sit, og þar munum við vonandi fá inn á borð til okkar áætlun um orkuskipti í samgöngum og við munum fá kynningu á loftslagsskýrslu o.fl. slíkt. Eru þetta ekki allt hliðar á sama teningnum sem horfa þarf heildrænt á? Og kannski er kominn tími til að staldra aðeins við áður en við stígum einhver skref sem geta orðið óafturkræf?