146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:10]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér heyrðist eins og ráðherranum þætti ég gera lítið úr því að verkefnisstjórn hefði starfað faglega og skilað góðum niðurstöðum innan þess ramma sem henni er ætlað. Það er ekki mín skoðun. Ég tel verkefnisstjórn einmitt hafa unnið gott, vandað og faglegt starf. En ég geri verulegar athugasemdir við það hvernig ráðherra og ráðuneytið afgreiða málið í lok síðasta sumars. Það að gefa málinu fjóra daga inni í ráðuneyti til að koma því sem fyrst til þings svo hægt sé að klára það fyrir kosningar er talsvert styttri tími en allur september, allur október og fyrstu tíu dagarnir í nóvember til að klára málið uppi í ráðuneyti, eins og gert var ráð fyrir í upphaflegu tímaplani verkefnisstjórnar.

Hæstv. ráðherra talaði um að hún og hæstv. orkumálaráðherra væru sammála um þessa niðurstöðu og það hefði alveg þótt saga til næsta bæjar að þeir tveir einstaklingar væru sammála um orkunýtingu hér fyrir nokkrum mánuðum, en svona gerir ríkisstjórn fólk að góðum félögum.

Mig langar að fá afstöðu ráðherrans til þess hvort þessi fjögurra daga umþóttunartími fyrirrennara hennar í ráðuneytinu samrýmist faglegum vinnubrögðum í þessu máli, miðað við það hvernig uppleggið var, og hvort þingmaðurinn Björt Ólafsdóttir hafi haft einhverjar athugasemdir við málið í haust þegar það var til umfjöllunar.