146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:22]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, að mörgu leyti hefur verið ágætlega að verki staðið og faglega unnið að þessu. Ég vildi eingöngu spyrja hv. þingmann út í þetta af því að við sátum saman á fundi um þetta. Hv. þingmaður segist ekki hafa skilið orð verkefnisstjóra þannig að ferlið hafi ekki verið í anda laganna. Mig langar að spyrja hv. þingmann að ef hann fengi það staðfest að verkefnisstjóri teldi að svo hefði verið, myndi það breyta einhverju um skoðun hans á því að vinnubrögð hefðu verið fagleg og að þetta hefði verið nógu ítarleg vinna?

Ég virði það við hv. þingmann að vilja ekki fara út í einstaka virkjunarkosti enda væri það löng umræða. Ég gat ekki betur skilið hér áðan en að við ættum mikla vinnu fyrir höndum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd við að rýna með stækkunargleri ofan í hvern einasta kost, en hefur hv. þingmaður, sitjandi í umhverfis- og samgöngunefnd, einhverjar áhyggjur af þeim varnaðarorðum sem hér hefur aðeins verið komið inn á í dag t.d. varðandi villta laxastofninn í Þjórsá? Það kom fram í máli hæstv. ráðherra að ekki væri enn ljóst hverjar mótvægisaðgerðirnar yrðu, hvernig því yrði komið við, heldur myndi það koma fram við framkvæmdaleyfi.