146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:33]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðuna. Þar var margt gott að finna og við deilum að mörgu leyti sýn á þá umræðu sem hér hefur farið fram. Ég gat eiginlega ekki á mér setið að eiga orðastað við hæstv. ráðherra, ekki að ég þurfi mikla hvatningu til að koma hingað upp, af því að mér fannst hæstv. ráðherra að mörgu leyti lýsa ástandinu vel, þ.e. þeim spurningum sem við stöndum frammi fyrir. Hæstv. ráðherra talaði um að finna þyrfti leiðir til að skoða þjóðhagslega hagkvæmni betur og nefndi ýmsar tækninýjungar eða framþróun í þeim þegar kæmi að nýtingu, sjávarföll, vindorku o.fl. Hæstv. ráðherra nefndi nýtinguna sjálfa, gagnaver, iðjuver, sæstreng. Það voru ansi stórar spurningar sem hæstv. ráðherra kom inn á og er það vel af því að þetta eru stór mál og þetta eru allt spurningar sem við munum væntanlega þurfa að taka afstöðu til hér. En mér fannst af lýsingu ráðherra að það væri kannski eðlilegt næsta skref í því að velta fyrir sér: Já, við þurfum kannski aðeins að staldra við, við þurfum að setja upp orkunýtingaráætlun. Hæstv. ráðherra talaði líka um orkuskipti í samgöngum, við þurfum að fara í línumálin, við þurfum að skoða hvert við ætlum að fara. Ætlum við að fara í sæstreng eða hvað erum við að gera?

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að það sé eðlilegt að staldra við og reyna að svara öllum þeim spurningum sem hæstv. ráðherra kom inn á, áður en við stígum það skref að samþykkja nýtingu einstakra kosta.