146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:37]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Mér þykir hann þó fara heldur frjálslega með málflutning minn í dag. Ég hef ekki nefnt neinn tíma í því, að það þyrfti að bíða eitt, tvö, þrjú ár, eða hvað það er. Ég hef í þessu máli, eins og reyndar mjög mörgum öðrum málum sem komið hafa hér inn á borð, kallað eftir því að horft yrði heildrænt á málið, hvort sem það snýr að raforkulínum eða öðru. Ég deili skoðun með hv. formanns umhverfis- og samgöngunefndar varðandi orkuskipti í samgöngum. Ég átti orðastað við fagráðherra þeirra mála hér um daginn um þau mál, og ég hef átt orðastað við hæstv. umhverfisráðherra um loftslagsmál og almennt þann málaflokk er lýtur að umhverfis- og loftslagsmálum.

Ég hef talað um að ný orkunýtingaráætlun væri lykilplagg í þessu efni. Þess vegna er ég ekki að kalla eftir því að við hendum allri vinnu til hliðar og höllum okkur aftur og bíðum bara eftir því að allt gerist. Ég er mun fremur að reyna að brýna hæstv. ríkisstjórn og hæstv. stjórnarmeirihluta til þess að víkka aðeins út sjóndeildarhringinn og slá í klárinn og fara að horfa heildstætt á þetta mál og reyna að samræma allar þær áætlanir. Þær tala ekki endilega alltaf saman, þær áætlanir sem hér hafa verið lagðar fram, ekki einu sinni á þeim stutta tíma sem núverandi ríkisstjórn hefur starfað.

Í ýmsum þeim áætlunum sem lagðar hafa verið fram hér er eins og ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdunum sem þurfa að liggja að baki þessu, eins og varðandi orkuskipti í samgöngum.

Það er nú það sem ég hef verið að tala fyrir hér. En mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hreint út á þeim fjórum sekúndum sem ég á eftir af ræðu minni: Er hæstv. ráðherra áfram um að lagður verði sæstrengur til Evrópu, þ.e. Bretlands?