146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[18:39]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanni annað andsvar. Ekki ætlaði ég að leggja honum orð í munn og skal fúslega játa að árin eitt, tvö eða þrjú voru alfarið mín. Þegar horft er til orkunýtingaráforma eða orkunýtingarstefnu verðum við að horfa til þess að við búum við frelsi um nýtingu, þ.e. einkaaðilum er fullkomlega heimilt að stofna hér til virkjunarframkvæmda á grundvelli þeirra heimilda sem löggjafinn veitir varðandi nýtingarkosti.

Stjórnvöld hafa þar af leiðandi ekki endanlega um það að segja hvaða kostir verða nýttir. Við höfum hins vegar horft á verulega stefnubreytingu hjá því fyrirtæki sem helsta ábyrgð ber á því, Landsvirkjun, sem breytt hefur nálgun sinni verulega á þennan málaflokk og horfir til þess að fara betur með auðlindina, ef svo mætti segja, með því að hámarka hinn þjóðhagslega ávinning af nýtingu þess sem nýta skal á annað borð. Það er vel.

Ég horfi til þess þegar við skoðum kosti eins og sæstreng að það kynni að vera mjög áhugavert, en að það er líka fjölmargt annað sem þyrfti að skoða í því samhengi, hversu mikið þyrfti að virkja til þess að það gæti orðið kostur, hvers konar strengur yrði lagður o.s.frv. En ég held að í þessu samhengi öllu gæti sæstrengur verið mjög áhugaverður. Hann bætir orkuöryggi okkar, hann bætir möguleika okkar til betri orkunýtingar, við munum losa upp það afl sem þegar er í núverandi virkjunum sem við getum ekki nýtt af ýmsum ástæðum, þannig að fyrir margra hluta sakir tel ég það mjög ákjósanlegt. Við eigum klárlega að skoða til hlítar hvort ráðast eigi í slíka framkvæmd. En það ræðst auðvitað af því hvernig sú framkvæmd verður, hvernig eignarhaldið á henni verður, hvert eðli strengsins verður, hvort það er ákjósanlegt eða ekki, en klárlega eigum við að skoða þetta til hlítar.