146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:37]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hennar. Það er sannast sagna heilmikil áskorun að koma að þessu verkefni. Það á sér mjög langa sögu og er tiltölulega flókið, bæði tæknilega og pólitískt og á svo margan hátt. Ég óska því hv. þingmanni velfarnaðar í að glíma við þetta viðfangsefni í hv. umhverfis- og samgöngunefnd.

Ég skil hv. þingmann þannig að hún styðji bæði ferlið og málið efnislega, þ.e. hún standi að framlagningu málsins og styðji framlagningu málsins efnislega sem stjórnarþingmaður, þannig að ég ætla ekki að spyrja hana um þann þátt málsins sem ég hef aðeins verið að víkja að öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins með.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, og það er ekki meiningin að fara að króa hv. þingmann af í því að fara að ræða um einstaka þætti málsins, en nú háttar svo til að lagt er til að einn virkjunarkostur á miðhálendinu fari í nýtingarflokk. Það er Skrokkalda, eða Skrokkölduvirkjun svokölluð, sem er á bls. 9 í því skjali sem við erum að ræða hér. Þetta er á miðhálendinu, en nú þegar er búið að gera miðlunarlón þarna, Hágöngulón, og það liggur auðvitað fyrir að um leið og við erum farin að fara þarna inn með virkjun þá erum við auðvitað að bæta í það sem fyrir er á þessu viðkvæma svæði.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort áform ríkisstjórnarinnar um að fara í friðlýsingu miðhálendisins í samræmi við samstarfsyfirlýsinguna breyti einhverju varðandi þennan tiltekna virkjunarkost í ljósi þess að ég sé ekki betur en hér stangist tillaga umhverfisráðherra á (Forseti hringir.) við þessi áform í stjórnarsáttmála?