146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:39]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hv. þingmaður vísar í Skrokköldu. Rökstuðningurinn með því er, með leyfi forseta:

„Virkjunin er á miðhálendinu en þar sem nú þegar er búið að gera miðlunarlón … stíflur og tilraunaborholur er ekki lengur um óraskað svæði að ræða.“

Svo heldur rökstuðningurinn áfram. Þannig að svarið við því er já, ég hefði talið að þetta ætti ekki að vera í andstöðu við það sem ríkisstjórnin hefur talað fyrir varðandi miðhálendið.

Að því sögðu ítreka ég það sem ég sagði áðan að ég hef persónulega ekki forsendur til að meta einstaka virkjunarkosti, en mun auðvitað leggja mig fram við að fara yfir allar þær athugasemdir sem koma fram í umræðum í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og þær ábendingar og athugasemdir sem hafa komið frá öðrum aðilum í sambandi við rammaáætlun.