146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:43]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Sú einskæra gleði sem birtist í ræðu minni gagnvart þinglegri meðferð — því er til að svara að mér hefur á köflum fundist umræðan hér í þingsal og líka úti í samfélaginu stundum ganga út á að hér sé vald þingsins ekki nægjanlegt og vald framkvæmdarvaldsins of mikið. Það er kannski sá þáttur sem ég var einna helst að vísa í, að mikilvægt er að framkvæmdarvaldið komi hingað með mál inn á dagskrá, eins og þetta mikilvæga mál, en jafnframt að það sé ekki bara afgreitt einn, tveir og núna af þinginu. Því það þarf að fara í umræðu og það er á endanum á ábyrgð okkar hérna, hv. 63 þingmanna, að afgreiða málið. Það er kannski bara svona einskær vinnugleði af hálfu þingmannsins sem kom fram í þeirri ræðu.