146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:48]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir andsvarið og fræðsluna um vistspor vindmylla. Ég treysti því að við eigum eftir að ræða það í hv. umhverfis- og samgöngunefnd þar sem við sitjum saman bæði.

Ég kom reyndar ekkert inn á sæstrenginn í ræðu minni. Ég vona að hv. þingmaður hafi ekki tekið því sem svo að ég hafi verið að ræða hann neitt sérstaklega. Það var ekki hluti af minni ræðu. En ég ítreka það sem ég sagði áðan, ég held að við þurfum að fara yfir það hvort lagaramminn sé ekki alveg örugglega skýr hvað vindorkuna varðar. Nú ætla ég ekki að vera einhver sérstakur talsmaður þess að hér rísi vindorkulundir út um allt land, alls ekki. En það er þó ýmislegt jákvætt við þá orkuvinnslu. Ég held að það sé mikilvægt að löggjafinn sé á undan framkvæmdaaðilunum því að ég hef heyrt fregnir af því að aðilar óski eftir því að fá að setja upp vindmyllur og þá í tiltölulega miklu magni. Ég vil bara tryggja að við, löggjafinn, séum búin að móta ramma í kringum slíkt áður en það fer að verða að veruleika með einhverjum hætti.