146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[19:52]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu hæstv. umhverfisráðherra til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu. Hún er nákvæmlega sú sama og lögð var fram 1. september 2016 af hálfu þáverandi umhverfisráðherra, Sigrúnar Magnúsdóttur. Það hefur verið áhugavert að heyra sjónarmið í umræðunni á borð við þau sjónarmið sem komu úr ranni hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns sem hefur ávallt verið og er í raun og veru alltaf andsnúinn einhvers konar samkomulagi um verklag á borð við rammaáætlun, í takt við þau lög um verndar- og orkunýtingaráætlun sem eru í gildi í landinu.

Það náðist að koma þessu verklagi raunverulega á koppinn og af stað í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar á árunum 2009–2013. En hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talaði í ræðustól þingsins um að allt færi alltaf í bál og brand þegar rætt væri um rammaáætlun.

Það er að miklu leyti rétt, enda er það svo, eiginlega sem betur fer, að almenningur hefur sterkar skoðanir á umhverfisverndarsjónarmiðum og vill láta til sín taka í þeirri umræðu, en það er nokkuð áberandi að þegar Framsóknarflokkurinn hefur farið með ábyrgð á málaflokkum orku- og umhverfismála hefur sannarlega mikill styr staðið um þau mál og meðferð þeirra í stjórnsýslunni. Get ég nefnt nokkuð mörg dæmi máli mínu til stuðnings en nefni bara Kárahnjúkavirkjun sem sannarlega klauf þjóðina. Og búið er að rekja hér í ræðum hv. þingmanna þátt Sigrúnar Magnúsdóttur, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem vann sína takmörkuðu vinnu við mikinn mótbyr bæði innan síns eigin flokks og frá Sjálfstæðisflokki, þáverandi samstarfsflokki sínum í ríkisstjórn. En sá tími er liðinn og vonandi er sá tími að renna upp að sjónarmið fjölbreyttari atvinnutækifæra út frá hagsmunum náttúrunnar beri sjónarmið stóriðjunnar ofurliði. Í það minnsta hefur hæstv. umhverfisráðherra Björt Ólafsdóttir talað með þeim hætti og vona ég að henni takist að sýna í verki þau sjónarmið.

Í umræðunni áðan tók til máls hæstv. félags- og jafnréttismálaráðherra og segist sakna þess að sjá ekki betur ígrundaðan þjóðhagslegan ávinning af verndarsjónarmiðum. Það er einu sinni svo, eins og hæstv. umhverfisráðherra benti í andsvari sínu áðan, að þá er afskaplega erfitt að vega og meta efnahagslegan ávinning af náttúru- og umhverfisvernd. Það er afskaplega erfitt að setja verðmiða á óspillta náttúru og lífsgæðin sem hljótast af því að vernda þau.

Rammaáætlun er ekki og verður aldrei fullkomið plagg fyrir neinn, heldur er rammaáætlunin málamiðlun. Eins og ég sagði áðan, var það ekki fyrr en í tíð ríkisstjórnar Vinstri grænna og Samfylkingarinnar að lög um rammaáætlun, nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun, voru samþykkt samhljóða á Alþingi 16. maí sama ár. Lögin tóku gildi að hluta þann dag og síðan að fullu þann 14. janúar 2013, eftir að Alþingi samþykkti tillögu til þingsályktunar sem kveðið er á um í 3. gr. laganna. Með þeirri tillögu til þingsályktunar, sem samþykkt var á Alþingi, lauk loks 2. áfanga rammaáætlunar sem staðið hafði með hléum frá árinu 2003. Í heil tíu ár. Í heil tíu ár hafði verið beðið eftir 2. áfanga rammaáætlunar. Í henni voru virkjunarkostir flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Við vinnum svo áfram á þeim grunni og byggjum á þeirri vinnu.

Þegar við ræðum þessa þingsályktunartillögu í þingsal í dag er ekki úr vegi að halda því til haga, fyrst umræðurnar eru að mestu leyti yfirvegaðar í þingsalnum, að vinnan við þingsályktunartillöguna á fyrri stigum, af hálfu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, fór ekki fram í friði. Það var ekki alltaf mikill friður í kringum þá vinnu, ekki heldur þegar um var að ræða afar óviðeigandi aðkomu Orkustofnunar og Landsvirkjunar og áhrif hennar á vinnu verkefnisstjórnar rammaáætlunar.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hér hafa reifuð um það sem halda hefði mátt betur til haga í rammaáætlun, sem er greining á samfélagslegum áhrifum virkjunarkosta sem falla undir orkunýtingarflokk. Auðvitað á sú greining að fara fram og ég hvet hæstv. umhverfisráðherra að beita sér fyrir því. Einnig vil ég benda á, líkt og fleiri hv. þingmenn hafa gert hér í dag, að rökstuðningurinn varðandi það að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun í neðri hluta Þjórsár séu í orkunýtingarflokki er að mínu mati byggður á afar veikum grunni. Er tiltekið í þingsályktunartillögunni að óvissa ríki um áhrif virkjananna á hrygningarstöðvar og uppeldisstöðvar villtra laxastofna. Á meðan sú óvissa er fyrir hendi er ég alla vega í hópi þeirra sem eru talsmenn þess að flýta sér hægt í þeim efnum.

Varðandi rökstuðninginn sem liggur til grundvallar háhitasvæðunum í orkunýtingarflokki verð ég að játa að mér finnst sá rökstuðningur ekki vera beysinn. Til að mynda hnýt ég um þann rökstuðning sem byggður er á því að verðmæti svæðisins í kringum Trölladyngju og í Þverárdal í Innstadal á Hengilssvæðinu muni aukast. Ekki er tilgreint nákvæmlega hvaða verðmæti verið er að tala um. Aukast þá á hvaða hátt? Eingöngu á efnahagslegan hátt? Hvers konar verðmætaaukningu er þarna um að ræða? Það er ekki rökstutt eða útskýrt nánar og ég hefði talið að verðmæti þessara svæða væru einmitt metin út frá öðru en efnahagslegum viðmiðunum, sem mér sýnist vera raunin.

Því tek ég frekar undir þau sjónarmið sem fram koma í sjónarmiðum verkefnishópanna sem telja fremur að svæði á borð við Innstadal sjálfan í Henglinum sé fágætt útivistarsvæði í einstöku jarðhitaumhverfi sem eigi frekar heima í biðflokki. Ég tel að frekar eigi að líta til sjónarmiða af þeim meiði en til efnahagslegra sjónarmiða. Og það er líka mjög áhugavert sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir benti á rétt áðan varðandi Skrokköldu og fyrri fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar um að hefja vinnu við undirbúninginn á vernd miðhálendisins. Það fer engan veginn saman, það er ljóst og er skýrt í þingsályktunartillögunni. Ég vonast til að það muni skýrast í meðförum þingsins á ályktuninni.

En ég vil líka koma því fram í ræðu minni að mér finnst skorta verulega á að í þingsályktunartillögunni séu borin á borð sjónarmið um almenna verndarstefnu, sem ég hefði fyrir fram haldið að núverandi hæstv. umhverfisráðherra hefði viljað leggja áherslu á að koma að í þingsályktunartillögu sinni. En ég vona að við meðferð málsins í fastanefndum þingsins og aftur í seinni umræðu í þingsal verði þau sjónarmið sterkari og almennari. Eins og ég sagði áðan er rammaáætlun ekki og verður aldrei fullkomið plagg fyrir neinn, heldur er hún málamiðlun. Hún er samt sem áður nauðsynlegt verkfæri fyrir okkur öll til að mynda sátt í þjóðfélaginu um umgjörð varðandi friðun og verndarsjónarmið og svo á hinn bóginn varðandi skynsamlega nýtingu auðlinda okkar þar sem náttúran á ávallt að njóta vafans.

Hér í dag hafa talað lukkuriddarar sem hafa allt á hornum sér varðandi rammaáætlun, en við verðum að standa vörð um rammaáætlunina og reyna allt sem við getum til að ná einhverri sátt um hana sem verkfæri. Við eigum ekki að hverfa aftur til fortíðar og taka upp þann óleik að ákveða um einstaka virkjanir eftir hentugleika og eftir því hvernig pólitískir vindar blása. Við í Vinstri grænum erum a.m.k. ekki á þeirri skoðun. Við teljum hins vegar að náttúruauðlindir og nýting þeirra eigi ávallt að vera í sátt við umhverfi og náttúru og helst að sjálfsögðu að þær séu í þjóðareign.