146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:11]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka brýninguna og hvatningu um að fara í gang með friðlýsingar. Þetta er alveg réttmæt ábending, það hefur gengið allt of hægt. Fyrir því eru ýmsar ástæður eins og hv. þingmaður veit. Það er kannski óþarfi að vera að reifa þær í þessu stutta andsvari. En ég er mjög meðvituð um þetta og vil gera betur.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um að hún hefði heyrt að hv. stjórnarþingmenn væru í umræðunni í dag að tala fyrir verulegum breytingum á tillögunni vil ég segja að ég hef setið hér í allan dag og hlustað og ég hef ekki orðið þess áskynja. Ég hef þá skilið orð stjórnarþingmanna á annan veg en hv. þingmaður. Fólk hefur bent á að hér er í gangi þingleg meðferð, hún er að hefjast, og auðvitað er það augljóst. Það er allt gott og blessað. En kannski höfum við hv. þingmaður ekki skilið það á sama veg, það sem ég hef heyrt í máli hv. stjórnarþingmanna er að ef okkur tekst ekki að halda okkur við þetta fyrirkomulag rammaáætlunar þurfum við að henda því. Ég tel ekki að það sé neinn vilji til að gera það, þvert á móti. Ég hef heyrt brýningu til þess að við höldum okkur við þetta fyrirkomulag. Því er ég svo sannarlega sammála.

Mig langar aðeins að koma inn á Skrokköldu. Það er ýmislegt sem maður hefur þurft að kyngja í þessari tillögu. Ég ætla að segja heiðarlega að ég þurfti að kyngja Skrokköldu. (Forseti hringir.) Það er alveg rétt að þetta er málamiðlun. Ég þurfti að kyngja þessu. Hins vegar er Skrokkalda þannig úr garði gerð að hún er þarna með lón úr Hágöngum og mun ekki, að því er virðist, valda verulegri röskun á svæðinu.