146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:18]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Verkefnisstjórn rammaáætlunar er ætlað það erfiða verkefni að leggja til ákveðna faglega flokkun sem byggir á faglegum gögnum og greiningum. Sú tillaga fer síðan í umsagnarferli þar sem allir geta lagt sitt inn og ráðherra kemur síðan og ber tillöguna á borð fyrir Alþingi þar sem Alþingi þarf á endanum að taka pólitíska afstöðu til niðurstöðu verkefnisstjórnar. Það sem ég benti á í máli mínu er að um leið hefur verið sett fram ákveðin pólitísk stefnuyfirlýsing um vernd miðhálendisins. Þar getur verið alls konar starfsemi, segir hæstv. ráðherra, þar geta verið virkjanir og alls konar, sem er alveg rétt.

Hins vegar hefði ég talið pólitísk rétt meðan þessi stefnumótun stendur yfir að við biðum með frekari ákvarðanir. Ég ætla ekki að segja til um hver niðurstaðan kann að verða af þeim. Búið er að ákveða að setja af stað vinnu við, eins og hæstv. ráðherra segir hér fullum fetum, að stofna miðhálendisþjóðgarð þar sem að sjálfsögðu verða vegir og það verða einhver manngerð áhrif á þann þjóðgarð. En þar sem umræðan um hvar það á að vera, hvernig það á að vera hefur ekki farið fram, er þá rétt að Alþingi ákveði á sama tíma að setja virkjunarkost í nýtingarflokk sem er á þessu svæði? Mér finnst það ekki. Við höfum ákveðnu hlutverki að gegna á Alþingi. Hluti af því er að taka afstöðu til nákvæmlega svona mála. Hæstv. ráðherra segir hreint út að hún leggi fyrir okkur tillögu verkefnisstjórnar eins og hún kom, sem byggir á þessum faglegu þáttum, en um leið hljótum við á þinginu þegar við tökum á málinu að horfa til þessara pólitísku sjónarmiða. Þar finnst mér að við eigum ávallt að vinna út frá því að við látum (Forseti hringir.) náttúruna njóta vafans og tökum ekki óafturkræfar ákvarðanir, t.d. í svona tilfellum. Það er mín skoðun.