146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:52]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur kærlega fyrir gott andsvar. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki lesið þingskjalið sem þingmaðurinn vitnar í en ég hyggst gera það.

Ég heyri ekki betur en að vissulega horfum við til þess að áherslur stjórnvalda séu að breytast. Það er augljóslega minni þungi á uppbyggingu stóriðju en var fyrir ekki svo mörgum árum síðan, það er ljóst. Ég nefni dæmi úr heimabyggð minni, Reykjanesbæ, en þar eru fréttir, reyndar misvísandi, um uppbyggingu álvers í Helguvík. Það eru vissulega breyttir tímar og aukin áhersla á grænan iðnað og nýsköpun og fleira. Það verða einmitt sérstakar umræður á morgun um nýsköpun í þinginu sem verður áhugavert að fylgjast með.

Önnur spurning sem ég fékk var hvort það vanti orku, hvort smáfyrirtæki og heimili vanti orku. Eins og ég kom inn á áðan í ræðu minni finnst mér fyrst og fremst að við verðum að koma dreifingunni í betra horf en nú er. Mér finnst að við eigum að koma því í betra horf sem við höfum nú þegar, þ.e. dreifingu, raforkuöryggi og að allir hafi þrífasa rafmagn úti um allt land. Mér finnst að það sé grunnpunktur sem við getum byrjað á. Síðan getum við farið lengra. Ég er t.d. algerlega á móti hugmyndum um lagningu sæstrengs. Ég hef lagt fram skriflega fyrirspurn til ráðherra um hver sé stefnan í þeim efnum. Ég hlakka til að fá svar við þeirri spurningu og fylgist spennt (Forseti hringir.) með. En byrjum á grunninum og höldum svo áfram. Það þarf að tengja ráðuneytin betur saman en nú er.