146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég heyri að við hv. þingmaður erum sammála með ýmislegt eins og að vera á móti því að sæstrengur verði lagður en þar með yrði mikill þrýstingur á auknar virkjunarframkvæmdir í landinu.

Mig langar að spyrja aðeins í lokin um þá samfélagslegu og efnahagslegu þætti sem hv. þingmaður kom inn á og að umhverfis- og samgöngunefnd myndi fjalla um þá þætti í vinnu sinni þegar hún kallaði til umsagnaraðila. Nú er hv. þingmaður þingmaður Suðurlands. Þar hefur ungt fólk sem býr í nálægð við Þjórsá og uppsveitir á Suðurlandi og á því svæði stofnað atvinnuþróunarfélagið Gjálp. Eins og ég skil það hafa um 110 manns skrifað undir áskorun um að Þjórsá verði ekki virkjuð, neðri hluti Þjórsár, og hefur fólkið aðrar hugmyndir um uppbyggingu á þessu svæði fyrir nýja kynslóð, ný viðhorf. Þykir hv. þingmanni ekki rétt að við hinkrum og metum stöðuna og förum ekki fram úr okkur með því að fara út í nýtingu, virkjunarframkvæmdir á þessu svæði þegar ný kynslóð, ungt fólk, sér miklu fleiri og fjölbreyttari möguleika en að fara að virkja í þessari perlu sem við eigum og er ómetanleg? Viðhorfin gagnvart perlum eins og Þjórsá eiga eftir að breytast til framtíðar og þá er ekki rétt af okkar kynslóð að fara að njörva það niður með því að setja Þjórsá í nýtingarflokk með þeim óafturkræfu áhrifum sem af því leiða.