146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[20:57]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði áðan í ræðu minni vil ég ekki á þessu stigi málsins leggja mat á þá virkjunarkosti sem taldir eru til í fyrirlagðri þingsályktunartillögu. Ég vil heyra og sjá umsagnir þeirra aðila sem umhverfis- og samgöngunefnd verður í samskiptum við á næstu vikum og þá getur maður kannski gert sér skýrari mynd af því, kostum og göllum tiltekinna framkvæmda.

Varðandi Þjórsá er ég, eins og hv. þingmaður nefndi, þingmaður Suðurkjördæmis og hitti þar alls konar fólk með ólíkar skoðanir á virkjunum í Þjórsá. Ég hef rætt við bændur sem búa við Þjórsá sem vilja endilega t.d. að Urriðafossvirkjun verði að veruleika og allir kostir nýttir til fulls. En eins og hv. þingmaður nefndi hefur líka verið stofnað þarna félag sem hefur aðra sýn á framtíð svæðisins. Ég geri ráð fyrir því að þegar nefndin er komin með málið til sín muni þessir aðilar skila inn umsögnum og færa rök fyrir máli sínu. Þá getum við þingmenn tekið undir eða verið á móti eftir atvikum, eftir því hvernig þetta lítur út fyrir okkur. En númer eitt, tvö og þrjú, segi ég enn og aftur því að það skiptir mjög miklu máli, er að við þingmenn vöndum okkur nú. Við verðum að ná pólitískri sátt um þá vinnu sem rammaáætlun býður upp á í eitt skipti fyrir öll. Við verðum að skapa traust gagnvart þessu tæki sem við höfum og við eigum að fara varlega þegar við metum virkjunarkosti. Við eigum að sýna náttúrunni virðingu og hugsa til framtíðar í öllum tilfellum.