146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[21:08]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans, líka fyrir að skilja hér eftir pappíra með símanúmeri sem ég hringi í á eftir. [Hlátur í þingsal.]

Ég var sammála mjög mörgu sem fram kom í ræðu hv. þingmanns og fannst í raun og veru ótrúlega mikill samhljómur í því sem hv. þingmaður sagði og því sem ég hef verið að reyna að tala fyrir í dag ásamt fleiri hv. þingmönnum, þ.e. að það þurfi að horfa heildstætt á þessi mál. Hv. þingmaður talar um þá þingsályktunartillögu sem við höfum hér í höndunum, stjórnarmál lagt fram af hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra, þannig að hann hafi það á tilfinningunni að hann sé með hálfunnið verk í höndum. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður telji að það þurfi að fara fram þessi heildarskoðun á umhverfi raforkumála frá A til Ö sem ég tel nauðsynlegt að gera, þ.e. frá framleiðslu orkunnar yfir í flutning hennar, en kannski ekki síst nýtingu.

Hv. þingmaður kom inn á fleiri kosti sem fleiri hv. þingmenn hafa gert, t.d. hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir, svo sem vindorku og fleiri hv. þingmenn hafa nefnt ýmsa aðra kosti. Hv. þingmaður eyddi töluvert mörgum orðum í flutningskerfið, skiljanlega, þegar horft er á hvaðan hann kemur. Mig langar hreinlega að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að það sé kannski þörf á því að hægja aðeins á sér, staldra við, og horfa á þetta mál heildstætt. Ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en að hann væri að kalla eftir því.