146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[21:10]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið. Ég held að það sé a.m.k. hægt að segja að full þörf sé á því að við hugsum þetta heilsteypt, hvað við ætlum að stefna á og hvernig við ætlum að nýta eina af okkar helstu auðlindum með sem bestum hætti og hámarka hana fyrir land og þjóð. Þetta er satt að segja ein sú auðlind sem skapar samkeppnishæfni landsins, sú auðlind sem við eigum í raforkunni og síðan er það flutningskerfið, að við höfum öflugt kerfi til að fullnýta orkuna með sem hagstæðustum hætti og fáum sem mest út úr þessu.

Ég vildi hins vegar bara benda á þetta. Við erum náttúrlega að fara með þessa þingsályktunartillögu í gegnum þinglega meðferð. Mér fannst bara rétt að koma með þessa athugasemd fram sem kemur fram í skjalinu með símanúmerinu. [Hlátur í þingsal.] Þetta er ákveðinn galli sem maður sér þegar maður les á milli línanna og tengir saman nokkrar málsgreinar sem eru ekki allar á sama stað, en þegar maður les heildina út úr þessu. Ég reikna með að umhverfis- og samgöngunefnd skoði þetta og Alþingi í framhaldinu í síðari umræðu. Við sjáum bara hver þessi þinglega meðferð verður og hvað við endum með, hvernig tillagan lítur út að lokum.

Þetta er gríðarlega mikilvægt plagg, það er alveg ljóst. Ég er mjög hlynntur því að við gerum slíka áætlun. Það er bara þetta sem ég er að benda á. Ég er ekkert á móti þessu plaggi sem slíku eða neitt slíkt, það er bara að það standist kröfur okkar um hvernig er staðið að málum, hvernig það kemur fram í plagginu. Mér finnst aðeins vanta upp á það.