146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[21:17]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka ræðu þingmannsins. Ég vildi rétt víkja að því sem hann kom að í ræðu sinni sem er alveg rétt athugasemd hvað varðar faghópa 3 og 4. Þeir hafa ekki skilað og þeirra vinna liggur ekki að fullu fyrir verkefnisstjórn eins og vinna faghópa 1 og 2. Ég segi að fullu af því að mér finnst gæta ákveðins, eigum við að segja blæbrigðamunar, ekki misskilnings, í því þegar menn segja, og ég er ekki að segja að hv. þingmaður hafi sagt það, en því hefur því verið fleygt fram í umræðunni að efnahagsleg áhrif t.d. hafi ekki verið metin. Það er ekki alls kostar rétt. Ég vil halda því til haga.

Í rammaáætlun 2 var stofnkostnaður virkjana metinn. Það var líka gert í rammaáætlun 3 nema Orkustofnun var falið það hlutverk af verkefnisstjórn, enda taldi verkefnisstjórn það vera lögbundið hlutverk Orkustofnunar. Það var því sannarlega metið.

Svo aðeins um það sem hv. þingmaður kemur inn á í svörum sínum við hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé hvað varðar þá þætti sem við vitum svo lítið um, sem eru einmitt efnahagslegir, efnahagsleg áhrif, orkusöluverð til mismunandi aðila. Hvernig mun ein virkjun vera metin hvað varðar langtímaarðsemi, jarðvarmavirkjanir versus vatnsaflsvirkjanir o.s.frv.? Þetta gerir það að verkum að erfitt er að meta nákvæmlega efnahagsleg áhrif á hverja virkjun.

Mér finnst rétt að halda því til haga. Ég vildi koma því að að efnahagsleg áhrif eru skoðuð, þótt alltaf megi gera betur.