146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[21:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tillögu hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Eins og gefur að skilja hafa allmörg sjónarmið verið rædd og reifuð hér við umfjöllun málsins. Mig langar að drepa á nokkur atriði til umhugsunar og kannski fyrst og fremst fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem fær málið til umfjöllunar eftir þessa umræðu.

Mig langar í fyrsta lagi að ræða um það að ég tel rétt að hv. nefnd, sem fær væntanlega hæstv. umhverfis- og auðlindaráðuneyti á sinn fund, spyrji sérstaklega eftir þeirri staðreynd, sem reyndar hefur komið hér aðeins fram í andsvörum við hæstv. ráðherra, að ekki hefur gengið að ljúka við friðlýsingar á kostum í verndarflokki, sem eru í verndarflokki frá 2013. Það eru ýmsar skýringar á því eins og fram hefur komið í máli hæstv. ráðherra og sú sem hér stendur þekki margar þeirra, en það er sannarlega þannig að setja þarf bæði aukið fjármagn og aukinn mannafla í þetta mál, ekki síst vegna þess að það er mikilvægt upp á trúverðugleika þessa verkefnis að raunverulegt jafnvægi ríki milli verndar og nýtingar og verndinni sé fylgt eftir af myndarskap.

Hér hefur aðeins verið rætt um nýtingarflokkinn og fyrst og fremst um efasemdir þingmanna varðandi tiltekna þrjá kosti í nýtingarflokk. Ber þar fyrst að nefna Skrokkölduvirkjun. Ég ætla ekki að dvelja sérstaklega við það, en tel einsýnt að nefndin skoði samspil áforma ráðuneytisins við þá staðreynd að hér er lagt til að Skrokkalda fari í nýtingarflokk. Ég held að það hljóti að vera partur af því sem þingið tekur til skoðunar, a.m.k. að það sé ekki þannig að við missum, ef svo má að orði komast, Skrokköldu í nýtingarflokk sem verður þá til þess að trufla áform um miðhálendisþjóðgarð. Það er ekki eins og við megum engan tíma missa í því efni. Ég vil minna á að þarna er gert ráð fyrir 30 megavöttum, það er allt og sumt. Það er ekki eins og það skilji milli feigs og ófeigs í einhverju orkumagni eða einhverju slíku.

Síðan vil ég nefna annað sem lýtur að Holtavirkjun og Urriðafossvirkjun. Hér hefur verið fjallað fyrst og fremst um þá staðreynd sem kemur fram í tillögunni að verkefnisstjórnin telur sig ekki komast lengra með þetta tiltekna mál og telur raunar að óvissunni verði ekki eytt á því stjórnsýslustigi sem verkefnisstjórnin starfar á, þ.e. í umboði ráðherra, og verkefnisstjórnin telur að um þessa óvissu þurfi að fjalla í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar og við leyfisveitingar, þ.e. á síðari stigum og þá á vettvangi sveitarstjórnarinnar og leyfisveitenda.

Þá vil ég nefna, og það ræddi ég aðeins í umræðu um samhljóða tillögu hér í tíð síðustu ríkisstjórnar og hefur ekki borið á góma í þessari umræðu, ný náttúruverndarlög. Hér tóku gildi á haustþingi 2015 náttúruverndarlög, nr. 60/2013, sem fóru í farveg sem öllum hér er held ég kunnugt um þar sem þurfti að taka það mál til endurskoðunar og þess var freistað að ná betri þverpólitískri sátt um afgreiðslu málsins. Það tókst í umhverfis- og samgöngunefnd. Þar urðu í raun og veru þau tíðindi að meginreglur umhverfisréttarins voru lögfestar í íslenska löggjöf. Meðal annars er þar, og það er kannski mikilvægast, svokölluð varúðarregla sem snýst í stuttu máli um að náttúran skuli njóta vafans en kannski í lengra máli að ekki megi bera við skorti á upplýsingum og rannsóknarniðurstöðum til þess að taka ákvarðanir sem séu náttúrunni í óhag. Skortur á upplýsingum sé þannig alltaf náttúrunni í hag á hverjum tíma.

Ég spurði aðeins um þetta í umfjöllun málsins hér á þinginu í fyrra og varð þess þá áskynja að þessi sjónarmið höfðu ekki verið tekin til skoðunar við lokaröðun verkefnisstjórnarinnar. Mér finnst það enn og aftur mikilvægt. Þetta er sjónarmið af svipuðum toga, þ.e. mikilvægi þess að þessi tillaga sé afgreidd og um hana fjallað í samhengi við önnur þau mál sem heyra undir pólitíska stefnumörkun líkt og miðhálendisþjóðgarð, sem ég tel að eigi hér meirihlutastuðning, og svo hins vegar nýlega þverpólitíska löggjöf sem varðar stórar meginreglur í náttúruvernd. Það væri önugt ef við lentum í því að taka ákvörðun eða ljúka við umfjöllun um tillögu af þessu tagi sem bryti í bága við nýlega þverpólitíska löggjöf. Ég bið því hv. umhverfis- og samgöngunefnd að skoða þennan þátt sérstaklega og þá hugsanlega að fá um þetta minnisblað frá ráðuneytinu eða öðrum þeim sem um það geta fjallað til þess að tryggt sé að þessi sjónarmið fari hönd í hönd.

Hér hefur verið fjallað lítillega um viðfangsefnið sjálft, þ.e. verkfærið rammaáætlun og menn hafa rætt það frá ýmsum hliðum. Mér finnst mikilvægt að við höldum því til haga að rammaáætlun var aldrei ætlað að verða sátt heldur grundvöllur, sameiginlegur grundvöllur og sameiginlegur skilningur á verklagi. Ég held að engan hafi órað fyrir því að það yrði sátt í samfélaginu um vernd og nýtingu. Þannig er það ekki. Það er mín skoðun til að mynda að það sé algjörlega nóg komið af nýtingu náttúrusvæða í þágu orkuvinnslu, það er það. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að við sammælumst um ferlið. Svo get ég líka verið ósammála niðurstöðu ferlisins, því það er okkar verkefni hér að takast á um niðurstöðuna því annars væri þinginu ekki falið að ljúka afgreiðslu málsins, heldur værum við þá núna að útvista niðurstöðunni til verkefnisstjórnarinnar og niðurstaða hennar væri bara ákveðin þar. Þannig er það ekki. Þetta kemur hingað og það er þung skylda sem hvílir á okkar herðum.

Ég vil líka segja það almennum orðum við hv. umhverfis- og samgöngunefnd að ég held að sé mikilvægt að hafa það leiðarljós, í ljósi þeirrar löggjafar sem tillagan hvílir á frá 2011 en hún er fyrsta tillagan sem byggir á lögunum ótrufluðum, þ.e. það er ekkert bráðabirgðaákvæði hér, að það sé mikilvægt að gæta að samstöðunni sem grundvöllurinn hvílir á og samstöðunni sem náttúruverndarlög nýsamþykkt byggja á líka, vegna þess að ákvarðanir af þessu tagi varða langa framtíð. Hér hefur hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon aðeins vikið að þeirri stóru siðferðilegu spurningu hvort núlifandi kynslóð hafi yfir höfuð umboð eða leyfi til þess að taka ákvarðanir um nýtingu langt fram í tímann þegar það liggur ekki einu sinni á með að nýta eitt eða neitt. Erum við kynslóðin sem tökum okkur bæði það bessaleyfi að ryðja íslensku samfélagi fram af bjargbrúninni í sögulegu efnahagshruni og takast á við öll þau boðaföll sem því fylgdi og taka svo líka bara landið eins og það leggur sig og leggja rúðustrikað blað yfir það og ákveða hvað má vernda og hvað á ekki að vernda? Við tökum býsna mikið til okkar, okkar kynslóð. Ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að íhuga hvað í því felst.

Þess vegna vil ég segja að það er mjög mikilvæg sýn að gæta að þessu siðferðilega samspili við komandi kynslóðir. Það er jú það sem sjálfbær þróun snýst um, að tryggja jafna stöðu komandi kynslóða á við núverandi kynslóðir. Þá má líka velta fyrir sér hvort sú jafnstaða snúist líka um réttinn til að taka ákvörðun um það með hvaða hætti við ráðstöfum eða kjósum að vernda náttúru landsins.

Ég vil líka loks segja það að það má svo sem leiða að því líkur að sumu leyti sé þessi rammi, þessi grundvöllur, þessi lagalegi grundvöllur, takmörkunum háður, vegna þess að hér er ekki horft sérstaklega til nýtingar í þágu ferðaþjónustu, en það er þáttur sem er líka stundum ágeng nýting sem veldur álagi á náttúruverndarsvæði. Sums staðar sjáum við svæði sem hafa orðið fyrir það miklu álagi að þau geta glatað verndargildi sínu. Það er önnur saga. Ég vænti þess að umhverfis- og samgöngunefnd muni líka fjalla um það.