146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[21:31]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Nú fer fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu að ljúka. Ég vil byrja á því að þakka fyrir umræðuna í dag. Hún hefur verið mjög góð. Ég verð eiginlega að segja að þau stóru orð sem hafa fallið, þau komu reyndar aðeins úr munni eins þingmanns, um að rammaáætlun sé þess eðlis að hún sé til ófriðar, eiga ekki við í þessum sal í dag og í kvöld. Þetta hefur verið góð málstofa. Ég hef alla vega notið þess að hlusta á mismunandi sjónarhorn. Ég finn hvernig umræðan hjálpar okkur áfram. Ég er mjög bjartsýn á framhaldið. Ég hef fulla trú á því að þingið hafi alla burði til þess að fara vel með þetta mál í þinglegri meðferð sinni.

Mig langar aðeins að tæpa á því sem hefur verið rætt um flutningslínur. Mér finnst við heyra minni áherslu á að virkja, það er gott finnst mér, og meiri áherslu á að við pössum að rafmagnið sem við þó virkjum nýtist öllum landsmönnum hringinn í kringum landið, litlum fyrirtækjum, hugum að byggðasjónarmiðum og þess háttar. Mér finnst mjög gott að heyra að umræðan þokast í þá átt. Kannski er vandinn meira þarna en við höfum áttað okkur á hingað til. Þannig hjálpar umræðan okkur, færir okkur sífellt lengra.

Þó vil ég segja varðandi flutningslínurnar að sannarlega þarf styrkja flutningsnetið á sumum svæðum, en fyrir hvern? Það er grundvallarspurning. Við megum ekki gleyma því að við erum með tvöfalt kerfi, ef við getum sagt sem svo. Við erum með þá spennu sem við nýtum fyrir byggðirnar, fyrir almenning, fyrir lítil fyrirtæki, og svo erum við með hærri spennu sem stóriðjan notar. Hvort erum við að ræða styrkingu á stóra kerfinu eða því minna? Þarna er greinarmunur á. Auðvitað hefur stóra kerfið ákveðin áhrif á litla kerfið hvað varðar truflanir og ýmislegt. Ég ætla ekki að fara djúpt ofan í það hér. En erum við ekki að ræða almenna kerfið? Erum við ekki að ræða almenning þegar við ræðum að fólk vanti rafmagn um allt land? Ég held það. Mér finnst ég heyra það á þingmönnum. Þá er mikilvægt að við höfum í huga að nú þegar fara yfir 90% raforkunnar í stóra kerfið. Hún fer til stóriðjunnar, til iðnaðarins. Árleg þörf á raforkuframleiðslu til almennrar notkunar er rúmlega 50 gígavattstundir á ári sem eru 7–9 megavött, ekki satt, eitthvað svoleiðis? Til samanburðar er vinnslugeta Kárahnjúkavirkjunar tæplega 50.000 gígavattstundir, eða 700 megavött.

Við þurfum aðeins að skipta þessu upp, það er gagnlegt fyrir umræðuna. Það liggur ekki á að nýta meira. Það er nóg í orkunýtingarflokknum nú þegar. Við þurfum að huga að verndarsjónarmiðum. Það er gert með ágætum hætti í tillögu verkefnisstjórnar sem ég legg fram óbreytta. Þarna er eitthvert jafnvægi á milli þó svo að aldrei verði allir ánægðir hafandi sín sjónarmið að leiðarljósi. En við verðum að hafa í huga hugtakið sjálfbærni og rétt komandi kynslóða til að ákveða hvað gera eigi áfram í þessum málum.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að þessu sinni. Ég þakka umræðuna og óska hv. umhverfis- og samgöngunefnd velfarnaðar í störfum sínum með málið.