146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

207. mál
[21:36]
Horfa

Sara Elísa Þórðardóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér var tjáð það nú fyrir stuttu af hv. þingmanni að ekki væri venjan að veita ráðherra andsvar í lok umræðu. Ég vil taka það fram við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra að ég er ekki að veita þetta andsvar henni til höfuðs á neinn hátt, heldur kem ég hér einungis upp til þess að koma nokkrum punktum á framfæri.

Hæstv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson talaði mikið um framtíðarsýn og efnahagsleg áhrif og að við þyrftum að hugsa um virkjunarmálin út frá langtímasjónarmiðum. Miðhálendisþjóðgarðurinn er löngu tímabær framkvæmd. Hann er raunverulega það sem ég mundi kalla, með leyfi forseta, „no brainer“. Ef menn hafa fylgst með umræðunni um þessi mál síðustu ár, ekki eingöngu hér á landi heldur alþjóðlega þar sem Ísland er hafið til skýjanna fyrir þessa stórkostlegu, einstöku, viðkvæmu, óspilltu náttúru á heimsmælikvarða sem við eigum og þetta óspillta miðhálendi, þá er landið langtímahugsunin, það er okkar perla og okkar framtíð. Það er það sem við þurfum að „virkja“, ef mönnum líður betur að tala um það þannig.

Eins og hv. þingmaður minntist á áðan er það skylda okkar og ábyrgð að passa upp á þessi svæði. Við höfum engan rétt, við höfum ekki umboð til þess að skemma þau fyrir komandi kynslóðum, eða fyrir afgangnum af Evrópu. Þetta er stærsta óspillta landsvæðið í Evrópu.

Ég þakka fyrir umræðuna. Það er búið að vera alveg frábært að taka þátt í þessu með ykkur. Ég þakka hæstv. ráðherra, sem mér finnst standa sig sérstaklega vel sem ráðherra.

(Forseti (UBK): Forseti minnir á að þingmálið hér er íslensk tunga.)