146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[21:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra heildarlaga um Umhverfisstofnun. Frumvarpið var einnig lagt fram á síðasta löggjafarþingi en náði ekki afgreiðslu. Það er nú endurflutt nær óbreytt. Lög um Umhverfisstofnun tóku gildi 1. janúar 2003 og voru þau sett samhliða því að Umhverfisstofnun var sett á fót. Í lögunum er eingöngu vísað til þess að Umhverfisstofnun fari með þau verkefni sem Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins og embætti veiðistjóra voru falin samkvæmt nánar tilgreindum lögum og er þar hvorki að finna efnislega umfjöllun um þau mörgu og fjölbreyttu hlutverk sem stofnunin hefur með höndum né verkefni hennar.

Tilefni þessa frumvarps er því sú þörf sem er til staðar að tiltaka með skýrari hætti í heildarlöggjöf um Umhverfisstofnun hvaða hlutverkum hún gegnir og helstu verkefni og ábyrgðarsvið stofnunarinnar en þau eru tilgreind í ýmsum sérlögum sem stofnunin vinnur eftir. Ríkisendurskoðun hefur bent á mikilvægi þessa og er það mat þeirrar stofnunar að full þörf sé á að hlutverk Umhverfisstofnunar verði samþætt og tiltekið með skýrari hætti í löggjöf um stofnunina.

Frumvarp það sem hér er til umræðu var unnið í samvinnu við Umhverfisstofnun. Við þá vinnu var m.a. litið til laga um Samgöngustofu sem sett voru í lok árs 2012.

Eins og fram kemur í gildandi lögum er Umhverfisstofnun ríkisstofnun sem fer með stjórnsýslu og framkvæmd umhverfis- og náttúruverndarmála. Í frumvarpinu er í fyrsta lagi fjallað almennt um hlutverk stofnunarinnar, skipulag og skyldu til samvinnu og samráðs. Þá er fjallað um helstu verkefni og málaflokka sem Umhverfisstofnun hefur umsjón með. Einnig er fjallað um skyldur Umhverfisstofnunar er lúta að upplýsingamálum og þær heimildir sem stofnunin hefur, t.d. til beitingar réttarúrræða og stjórnsýsluviðurlaga og til gjaldtöku.

Umhverfisstofnun hefur það almenna hlutverk að stuðla að hreinu og heilnæmu umhverfi og vernd og fjölbreytileika náttúru með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Eins og kveðið er á um í frumvarpinu veitir stofnunin ráðherra aðstoð við undirbúning að setningu laga og reglugerða á starfssviði sínu og aðstoð við stefnumótun og ákvörðunartöku í umhverfis- og náttúruverndarmálum og í alþjóðlegu samstarfi. Meðal verkefna Umhverfisstofnunar eru verkefni á sviði mengunarvarna, náttúruverndar, almannaréttar og útivistar, verndunar og sjálfbærra veiða, sjálfbærrar neyslu og hollustuhátta, efnamála, loftslagsmála, loftgæða, verndunar vatns og hafs og upplýsingagjafar.

Með nýjum lögum um Umhverfisstofnun, verði frumvarp þetta að lögum, er markmiðið að samþætta og skýra hlutverk stofnunarinnar betur en gert er í núverandi löggjöf og felur það í sér skýra umgjörð utan um þau hlutverk og verkefni sem Umhverfisstofnun hefur og sem tilgreind eru í sérlögum. Ætlunin með frumvarpinu er hins vegar ekki að fela Umhverfisstofnun ný hlutverk eða verkefni og felur það því ekki í sér efnisleg nýmæli. Telja verður að það muni auðvelda stjórnvöldum, haghöfum og almenningi yfirsýn og stuðla að betri samþættingu umhverfissjónarmiða við önnur málefnasvið.

Virðulegi forseti. Ég hef rakið meginefni þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar.