146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[21:47]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum sérstaklega fyrir að veita okkur í umhverfis- og samgöngunefnd verkefni til að vinna að. Það er gott að geta unnið að góðum málum. Heilt yfir held ég að skynsamlegt sé að taka saman heildarlöggjöf yfir Umhverfisstofnun.

Mig langar að spyrja ráðherra aðeins út í fjármagn. Það kom fram í máli ráðherra og í andsvörum við hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson að hér væri í raun bara verið að safna saman úr öðrum lögum og setja á einn stað. Í greinargerðinni segir, með leyfi forseta:

„Þá hefur Ríkisendurskoðun bent á að ráðuneytið þurfi að leggja stofnuninni lið þegar hún bendi á nauðsynlegar aðgerðir í umhverfismálum, svo sem með því að stuðla að því að fjármagn sé tryggt vegna þeirra.“

Síðan segir í mati á áhrifum þessa frumvarps, með leyfi forseta:

„Meginniðurstaða við mat á heildarkostnaði er að verði frumvarpið að lögum feli það ekki í sér neinar breytingar á tekjum eða fjárheimildum Umhverfisstofnunar né neinn kostnað eða aukin árleg útgjöld fyrir ríkissjóð þar sem engar breytingar verða á tekjustofnum eða rekstrarkostnaði stofnunarinnar frá því sem nú er, hvorki vegna breytinga á gjaldtökuheimildum, vegna húsnæðis- eða stofnkostnaðar, skipulagsbreytinga né breytinga í starfsmannahaldi.“

Mig langar að eiga orðastað við ráðherrann um þetta. Er athugasemdum Ríkisendurskoðunar um að nauðsynlegt sé að veita stofnuninni lið nógu vel mætt hér ef síðan fylgir ekki aukið fjármagn í frumvarpinu? Eða misskil ég þetta allhrapallega?