146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[21:50]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það mun ekki standa á mér að veita lið baráttu fyrir auknu fjármagni í umhverfismál. Hins vegar verð ég að játa að það kvikna ákveðin viðvörunarljós í mínum huga þegar ekki er rætt um neitt af því sem hæstv. ráðherra tiltók áðan að væri næsta skref í greinargerðinni. Það er beinlínis verið að státa af því að þetta muni ekki hafa neinn kostnaðarauka í för með sér. Næsta setning er í framhaldi af því sem ég las áðan, með leyfi forseta:

„Af framansögðu má þar af leiðandi gera ráð fyrir að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt verði frumvarpið samþykkt.“

Það verður að segjast eins og er að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki endilega hlaupið til þegar kemur að því að veita fjármuni sem vantar mjög víða. Það hefur ekki verið efst á forgangslista hennar að auka útgjöld ríkissjóðs, svo ekki sé meira sagt. Þess vegna fagna ég því sem hæstv. ráðherra sagði í fyrra svari sínu og mun bara bera það upp á hæstv. ráðherra þegar við förum að kljást við fjárlög og fjárlagagerð, að það verði þá ekki eins og segir í greinargerðinni, að afkoma ríkissjóðs haldist óbreytt. Allar þessar fínu áætlanir okkar þegar kemur að loftslagsmálum, þegar kemur að umhverfismálum og því öllu saman, sem við höfum verið að ræða töluvert síðustu daga og töluvert í dag, velta að sjálfsögðu á því að stjórnvöld séu tilbúin að setja aukna fjármuni í málaflokkinn. Þess vegna fagna ég þeim orðum hæstv. umhverfisráðherra sem komu fram í svarinu þó að ég hefði viljað sjá það betur í greinargerðinni og í það minnsta ekki að beinlínis væri talað um að þetta (Forseti hringir.) myndi ekki hafa nein áhrif.