146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[21:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég svaraði kannski ekki nógu skýrt áðan. Það er þannig að breytingin hér, þegar verið er að færa þessa löggjöf sem hefur verið tvist og bast út um allt yfir í einn lagabálk, mun ekki auka útgjöld ríkissjóðs neitt. Það er það sem er verið að tala um í greinargerðinni. Sú breyting hefur ekki kostnaðaraukandi áhrif.

Hins vegar er eftirlitið og öll starfsemin dálítið annað mál, það kostar auðvitað sitt. En það er kannski önnur umræða og á ekki beinlínis við það að hér sé verið að tína saman þessi lagaákvæði og setja þau saman í einn lagabálk. Það er ráðuneyti mitt, það er ég sem berst fyrir því að stofnunin fái nægt fé af fjárlögum til að geta sinnt hlutverki sínu vel. Það er minn kaleikur. Ég skal halda honum á lofti. Það hefur hins vegar ekki beint með þessa löggjöf að gera. En ég tek orðum hv. þingmanns sem hvatningu í þá átt.