146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[21:54]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Virðulegi forseti. Það er töluverð reynsla komin á Umhverfisstofnun. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þessa snaggaralegu kynningu áðan á frumvarpinu. Það er alveg ljóst að þörf er á að styrkja og samræma lagaumhverfi þessarar stofnunar, hún er auðvitað mjög mikilvæg. Þetta frumvarp er vandlega unnið, það er ekkert við það að athuga í sjálfu sér og engar athugasemdir eru gerðar við einstakar greinar hér.

Ég hef reynslu sjálfur af stofnuninni, hún er ekki mikil en þó pínulítil, ef við orðum það þannig. Ég hef alltaf talið þessa stofnun undirmannaða og hún verður það eflaust eftir þessa lagasetningu miðað við kostnaðargreininguna. Þetta á svo sem ekki að hafa nein útgjöld í för með sér á því sviði. En tek ég sannarlega undir þau orð, bæði hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés og hæstv. umhverfisráðherra, að það er mjög mikilvægt að fjár sé aflað til þessarar starfsemi því að verkefnin eru óneitanlega mjög mörg þegar saman fer rík eftirlitsskylda og víðtæk skráning, upplýsingaskylda og margvíslegar framkvæmdir og skipulagning.

Við höfum löngum velt vöngum yfir stofnanafjölda og skörun hlutverka frá lýðveldisstofnun og fram á okkar dag. Það hefur verið þannig. Ég þekki það af stofnunum sem ég hef unnið með að þróunin hefur lotið eigin lögmálum, upp hafa sprottið stofnanir, þær eru orðnar býsna margar í þessu litla þjóðfélagi, sprottnar upp af þörf. Síður hefur verið horft á skilvirkni og verkaskiptingu á heildrænan hátt. Í raun og veru er stofnanaflóran býsna skrautleg og kannski óþarflega margar stofnanir á framkvæmdasviði, rannsóknasviði, upplýsingasviði o.s.frv., en það hindrar það ekki að kominn er tími til að afgreiða þetta frumvarp sem skýrir stöðu og starfsemi Umhverfisstofnunar.

Ég ætla að nota síðustu mínúturnar til þess að beina augum að stofnanaflórunni, sem ég kalla svo, og undirmönnuðu stofnununum, ef horft til hverrar stofnunar fyrir sig. Þetta er stórt batterí ef við tökum það í heild, en stofnanirnar sjálfar eru gjarnan undirmannaðar og fjársveltar. Ég varpa fram til umræðu því fyrirbæri sem kallað hefur verið auðlindastofnun, reifa það bara stuttlega, þetta er mín persónulega skoðun, ég tek það fram, og upprunnin frá Sveini Runólfssyni, fyrrverandi landgræðslustjóra. Hann lagði fram minnisblað 2015 til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem ég ætla aðeins að fá að vitna til, með leyfi forseta:

„Lagt er til að sett verði á laggirnar auðlindastofnun. Hún verði þekkingar-, framkvæmda- og þjónustustofnun á þessu sviði, þ.e. verndun og endurheimt auðlinda landsins — þetta er sem sagt þurrlendisstofnun — góðurs, jarðvegs, ferskvatns, náttúru, ásamt umsýslu mikilvægra svæða í eigu ríkisins.“

Síðan segir:

„Undir hana færist öll landgræðslumálefni frá Landgræðslu ríkisins sem má þjappa saman sem vernd og endurreisn á virkni vistkerfa, skógrækt og þjóðskógar frá Skógrækt ríkisins, landshlutaverkefni í skógrækt, Hekluskógar, málefni Veiðimálastofnunar, náttúruverndarþátturinn sem nú er fóstraður í Umhverfisstofnun á sviði gróðurverndar, landslagsverndar, líffræðilegrar fjölbreytni og fleira. Undir hana myndi einnig heyra rekstur þjóðgarða, þar með talið Vatnajökulsþjóðgarðs. Síðast en ekki síst er brýnt að í hinni nýju stofnun yrðu sem allra flest málefni er varða verndun ferðamannastaða, ferðaleiða og svæða gegn ágangi og álagi af völdum ferðamanna og utanumhald vinnu við að lagfæra það sem úrskeiðis hefur farið.“

Þarna er sem sagt verið að færa sumt af starfsemi Umhverfisstofnunar ásamt nokkrum öðrum stofnunum inn í nýja stofnun. Fyrirmyndin kemur að mörgu leyti frá Skotlandi, kannski að einhverju leyti frá Noregi. Það er spurning hvort þarna værum við ekki að efla þá vinnu sem nauðsynleg er til þess að hér fari fram sjálfbær starfsemi á svo mörgum sviðum. Ég vil nota tækifærið og setja þessa hugmynd á flot.

En eins og fyrr hefur komið fram styð ég að sjálfsögðu þá ráðstöfun að vísa þessu ágæta frumvarpi til hv. viðkomandi nefndar.