146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[21:59]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir innlegg hennar og þessa kynningu á frumvarpi til laga um Umhverfisstofnun. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við förum að einfalda og gera það umhverfi sem Umhverfisstofnun og undirstofnanir hafa búið við skilvirkara.

Þegar maður skoðar frumvarpið kemur í ljós að það er margþætt, það hlutverk sem Umhverfisstofnun hefur og mun hafa. Meginhlutverkið er að stuðla að hreinu og heilnæmu umhverfi og vinna að vernd og fjölbreytileika náttúrunnar. Umhverfisstofnun á að vera ráðgefandi fyrir ráðherra um umhverfismál samkvæmt því lagafrumvarpi sem hér liggur fyrir til þinglegrar meðferðar. Skal Umhverfisstofnun einnig stuðla að náttúruvernd með markvissum aðgerðum og beita sér fyrir vernd líffræðilegrar fjölbreytni íslenskrar náttúru. Síðan kemur hér setning í textanum sem vakti sérstaklega athygli mína, að gefnu tilefni, en þar segir að stofnuninni beri að hefta „útbreiðslu framandi ágengra tegunda“. Þá kemur mér í hug kerfillinn sem við erum að berjast við um allt land. Hann er ólíkur lúpínunni sem líka dreifir sér víða um land en hún skilur þó eftir köfnunarefni í jarðveginum sem er þá undirbygging fyrir annan gróður, en kerfillinn drepur allt undir sér. Miðað við þetta hlutverk og þegar rætt er um fjármagn til þessarar stofnunar er að verða mjög afgerandi þörf á aðgerðum til að útrýma þessum kerfli sem skríður um landið. Eins og ég segi, þetta væri í sjálfu sér allt í lagi vegna þess að ég hef nú umgengist hann töluvert og finnst þetta hin fallegasta planta meðan hann er í blóma en það er ekki allt gull sem glóir eða fegurðin er ekki í andliti fólgin því að þegar maður kíkir undir er allur gróður þar dauður. Ég mæli með því að hugað verði að aðgerðum til að hefta útbreiðslu kerfils. Við sjáum hann líka skríða yfir mólendið og víða annars staðar og náttúrlega inn í skóglendi en ég hef töluverðar áhyggjur af því hvernig hann skríður yfir mólendið.

Umhverfisstofnun hefur líka það hlutverk að auka vitund almennings um tilgang náttúruverndar og sérstöðu friðlýstra svæða og mikilvægi þess að njóta útivistar í náttúrunni. Hún hefur líka í sínum verkahring að halda utan um bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að loftgæðum sem standast bæði alþjóðlegar og íslenskar kröfur. Auðvitað gildir hið sama um vatnsgæði og gæði hafsins þannig að hlutverk Umhverfisstofnunar er mjög viðamikið og hennar undirstofnana.

Umhverfisstofnun ber að stuðla að sjálfbærni og leiðbeina um grænan lífsstíl og þá eru losun mengandi efna, meðhöndlun úrgangs og skaðleg efni og varnir gegn áhrifum þeirra á umhverfi og heilsu manna undir eftirliti og stjórn Umhverfisstofnunar. Það kemur líka fram að Umhverfisstofnun skuli hafa reglulegt samráð og eiga fundi með heilbrigðisnefndum um allt land þó að hún hafi ekki boðvald yfir þeim þar sem þær eru á valdsviði sveitarfélaga en að vera til leiðbeiningar og til fræðslu fyrir þessar nefndir.

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að þetta frumvarp sé komið fram og að það gangi síðan til umhverfis- og samgöngunefndar. Ég held að það styrki hlutverk Umhverfisstofnunar og verksvið hennar og ábyrgð. Eins og fram kemur í greinargerðinni er talað um að ekki sé sérstakt tilefni til að meta samræmi varðandi stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar og svo hefur náttúrlega komið hérna fram með kostnað ríkisins af þessu lagafrumvarpi. Ég vil að lokum benda á að Umhverfisstofnun starfar í samræmi við fjölmörg sérlög eins og fram kemur á bls. 8 í frumvarpinu. Þar vil ég benda sérstaklega á, af því að það hefur verið mjög mikið í umfjöllun í fréttum núna, að þar undir heyra lög nr. 97/2004, um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu.

Ég hef aðeins tæpt á því sem er hlutverk Umhverfisstofnunar en það er líka bara mjög gott fyrir almenning að gera sér grein fyrir því hvað það felur í sér og hvað þetta frumvarp skiptir miklu máli.