146. löggjafarþing — 40. fundur,  7. mars 2017.

Umhverfisstofnun.

204. mál
[22:06]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom aðeins inn á áðan í andsvari mínu tel ég jákvætt að setja lög um Umhverfisstofnun og samræma lagabálka og reglur sem um stofnunina gilda. Ég tel hins vegar að þörf sé á að velta fyrir sér hlutverki og aðstæðum Umhverfisstofnunar, í raun og veru alltaf en kannski ekki síst þegar við erum að breyta eða setja lög um hana.

Eins og kemur fram í þessu frumvarpi til laga var það lagt fram á 145. löggjafarþingi en var ekki afgreitt, en er nú endurflutt nær óbreytt. Vissulega sjást þess merki á nokkrum stöðum að breytt hefur verið örlítið og tekið tillit til einhverra athugasemda, en heilt yfir er það nær óbreytt eins og segir í greinargerðinni.

Ég velti fyrir mér hvort það sé ekki miður að ekki hafi verið unnið aðeins frekar með málið og það útvíkkað. Til að mynda er hvergi í frumvarpinu minnst á loftslagsráð sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þó boðað að verði stofnað, eða hvernig samvinnu þess ráðs verði háttað við Umhverfisstofnun. Í 13. gr. frumvarpsins segir um loftslagsmál, með leyfi forseta:

„Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með og ber ábyrgð á bókhaldi Íslands yfir losun gróðurhúsalofttegunda, annast viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og tekur ákvörðun um losunarleyfi.“

Í svari hæstv. ráðherra við fyrirspurn hv. þm. Katrínar Jakobsdóttir um loftslagsráð sem koma á á fót segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra hefur hug á að ráðið taki að sér lykilverkefni við framkvæmd Parísarsamningsins og mótun á stefnu stjórnvalda til framtíðar og að því verði falin umsjón með að móta langtímasýn um minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2050 og meta möguleika á því að Ísland nái kolefnishlutleysi á næstu áratugum og hvað þurfi til þess.“

Það kallar einhvern veginn á mann að þessi tvö batterí þurfi að tala og vinna vel saman. Þess vegna hefði ég haldið að það þyrfti að minnast á fyrirhugað loftslagsráð í þessu. Það er þá kannski eitthvað sem við skoðum þegar þar að kemur.

Ég kom aðeins inn á fjármagn í andsvari mínu áðan. Það er ekki að ósekju, eins og ég kom aðeins inn á, að maður hafi aðeins varann á sér þegar kemur að því almennt hvort veita eigi aukna fjármuni til umhverfismála eða ekki. Hér í dag hefur verið minnst á friðlýsingarmál til að mynda og að í þeim hafi hvorki gengið né rekið. Ég hef verið að vitna í umsögn Landverndar um frumvarpið þegar það var lagt fram á sínum tíma, á 145. löggjafarþingi, með leyfi forseta:

„Það breytir ekki því að Umhverfisstofnun virðist ekki í stakk búin til að takast á við náttúruverndarmál, meðal annars friðlýsingarmál, á meðan engar auknar fjárveitingar koma frá fjárveitingavaldinu og enginn raunverulegur vilji er til þess að takast á við þann vanda sem náttúruverndin á við að etja innan stofnunarinnar, þar sem meðal annars er nánast alger ördeyða í undirbúningi friðlýsinga.“

Þetta eru býsna alvarlegar áhyggjur til að hafa og eitthvað af þessu getur kannski verið huglægt mat. En sú staðreynd hve lítið hefur orðið ágengt í friðlýsingarmálum er ekki huglægt mat, það er ósköp einfaldlega þannig. Við ræddum það hér, og hæstv. ráðherra kom inn á það, í umræðum varðandi rammaáætlun fyrr í dag.

Þess vegna hefur maður töluverðar áhyggjur af því að nægilegt fjármagn muni ekki fylgja með þessu. Vissulega er verið að taka til í lagasafni, skilgreina og skerpa sýn og ég veit ekki hvað. Það hefði hins vegar verið í lófa lagið að boða aukin umsvif, aukin verkefni, í greinargerð í máli hæstv. ráðherra þegar hún mælti fyrir frumvarpinu. Það heyrði ég ekki fyrr en gengið var eftir því sérstaklega hvað varðar fjármagn.

Þegar kemur svo að Landvernd sem ég vitnaði í áðan, umsögn hennar, þá aftur velti ég fyrir mér hvort ráð hefði verið að flytja þetta frumvarp ekki nær óbreytt frá síðasta þingi. Vissulega er þar komið inn á umsögn náttúruverndar sem var ekki gert nema að örlitlu leyti í síðasta frumvarpi af því að þá var Landvernd á undirbúningsstigum komin með sínar athugasemdir. En í þessu frumvarpi núna segir, með leyfi forseta:

„Ítarleg umsögn um frumvarpið barst frá Landvernd og snýr hún að náttúruvernd. Þar kemur fram að stjórn samtakanna fagni því að fram fari endurskoðun á lögum um Umhverfisstofnun en telji þó mjög langt frá því að frumvarpsdrögin sem voru til umsagnar leysi þann vanda sem lengi hafi steðjað að stjórnsýslu umhverfismála og telja samtökin löggjöf á þeim grunni mundi festa óviðunandi ástand í sessi. Í umsögninni segir að stjórn Landverndar telji að leggja beri frumvarp til laga um Umhverfisstofnun til hliðar þar til náttúruvernd hafi verið fundinn framtíðarstaður í stofnanauppbyggingu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Ráðuneytið telur ljóst að ábendingar í umsögn Landverndar fjalla að mestu leyti um efni sem er ekki hluti af frumvarpi þessu. Tilgangurinn með frumvarpinu er að setja ein lög um núverandi hlutverk Umhverfisstofnunar í samræmi við þau sérlög sem um stofnunina gilda. Tilgangurinn er hins vegar hvorki sá að leggja til breytingar á stofnanauppbyggingu ráðuneytisins né að breyta lögum um náttúruvernd. Þar sem helstu ábendingar Landverndar fjalla fyrst og fremst um atriði sem varða ekki efni frumvarpsins voru ekki gerðar breytingar á frumvarpsdrögunum vegna þeirra. Ráðuneytið mun hins vegar taka ábendingar Landverndar til skoðunar í tengslum við aðra vinnu ráðuneytisins á sviði náttúruverndar.“

Það að það sé ekki tilgangurinn núna að leggja hvorki til breytingar á stofnanauppbyggingu né að breyta lögum um náttúruvernd fær mig til að velta fyrir mér hvort, eins og ég segi, ráð hefði verið að leggja frumvarpið ekki fram nær óbreytt frá síðasta þingi, heldur einmitt að fara í þá vinnu. Það er nú einu sinni þannig að ef lög eru sett, rammi er dreginn utan um ákveðna starfsemi, þá er ekki endilega næsta skref að gjörbreyta þeim eða því umhverfi sem stofnunin sem þetta gildir um starfar í.

Ég óttast það pínulítið að með þessu sé verið að draga ramma um starfsemi Umhverfisstofnunar sem muni hamla þessari endurskoðun sem ég held að nauðsynlegt sé að fara í. Hins vegar verð ég að hrósa því sem vel er gert, maður á að alltaf að gera það líka, af því að í greinargerðinni segir að ráðuneytið muni skoða þessar ábendingar í tengslum við aðra vinnu ráðuneytisins á sviði náttúruverndar. Það væri þá óskandi að þær athugasemdir verði teknar inn í og að þetta frumvarp þýði ekki endapunkt á stofnanauppbyggingu, þetta þýði ekki að lögin sem við setjum núna muni standa, ja, um alla eilífð er kannski full djúpt og dramatískt, of djúpt í árinni tekið, þannig að það hamli því sem þarf að gera, því að ég held að við stöndum á ákveðnum tímamótum og þurfum að endurskoða allt stofnanakerfið okkar. Við þurfum að endurskoða stjórnsýsluna frá A til Ö. Við þurfum í mínum huga að endurskoða ýmislegt hér inni.

Ég hef velt fyrir mér hvort loftslagsnefnd ætti að vera ein af fastanefndum Alþingis. Ég hef ýmsar hugmyndir og er tilbúinn að skoða hvað sem er í því. Þetta eru stóru verkefnin núna á næstu árum, eins og hæstv. umhverfisráðherra hefur sjálf tiltekið.

Mér finnst því heldur mikil fljótaskrift á þessu hvað varðar athugasemdir Landverndar. Í umsögn Landverndar um frumvarpið þegar það var lagt fram síðast, ég tala hér um tvær greinar sem þá voru 7. og 8. gr. frumvarpsins, segir svo, með leyfi forseta:

„Þessu fagnar Landvernd að sjálfsögðu, en telur fráleitt að þessi tvö ákvæði hafi nein teljandi áhrif til bóta á þann vanda sem náttúruvernd á við að etja undir umsjá Umhverfisstofnunar. Þennan vanda hefur ekki aðeins Landvernd bent á, heldur er á hann bent í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá 2006, sem telja má eina helstu ástæðu framlagðs frumvarps, ásamt þremur skýrslum er gerðar voru í kjölfar þeirrar úttektar, 2009, 2011 og 2013, og reifaðar voru af Landvernd í umsögn um frumvarpsdrögin á undirbúningstíma frumvarpsins..“

Ég hef með öðrum orðum áhyggjur af því að við séum að leggja fram nær óbreytt frumvarp sem fékk á sínum tíma misgóðar umsagnir svo ekki sé meira sagt. Og að við, eins og ég sagði áðan, séum að búa til stofnanaumhverfi um umhverfismál, um náttúruvernd, um öll þau mikilvægu verkefni sem hér munu heyra undir, sem gætu fest sig um of í sessi þegar þörf er á að endurskoða þetta allt saman. Hér er sagt að umsögn Landverndar hafi í raun ekki með efni frumvarpsins að segja, en umsögn Landverndar gengur fyrst og fremst út á almennt umhverfi náttúruverndar. Og hvert er eitt helsta verkefni Umhverfisstofnunar samkvæmt þessum lögum? Jú, náttúruvernd og umhverfisábyrgð. Umhverfisstofnun skal stuðla að verndun náttúru með markvissum verndarráðstöfunum.

Ég held því að gott sé að taka til í lagasafninu. Það er alltaf gott að taka til, hvort sem er heima hjá sér eða í lagasöfnum. En ég hef áhyggjur af því að með þessu gætum við verið að festa um of í sessi umhverfi sem þarfnast breytinga við. Þá hef ég verulegar áhyggjur af því hvað varðar fjármögnun. Ég sagði áðan að almennt séð væri maður svona brenndur af því að illa gengi að fá fjármagn til umhverfismála. Það hefur verið raunin í mörg ár. En ég verð að segja að ég er sérstaklega var um mig á því sviði þegar kemur að núverandi hæstv. ríkisstjórn. Mér hefur sýnst sem svo að það sé stefna þessarar ríkisstjórnar að breyta í engu frá þeim útgjaldaramma sem síðasta ríkisstjórn setti. Það virðist ekki í neinu mega hrófla við því skattkerfi sem síðasta ríkisstjórn teiknaði upp. Þar virðumst við hafa náð fullkomnun að mati núverandi stjórnarflokka. Ég hef töluverðar áhyggjur af því að hald hæstv. fjármálaráðherra um pyngjuna muni verða fullfast, hnefinn fullkrepptur, þegar kemur að því að útdeila nauðsynlegum fjármunum til þessara mála.

Ég lýsti mig hér áðan reiðubúinn samstarfsmann hæstv. umhverfisráðherra þegar kæmi að þeirri rimmu. Það tilboð stendur enn. Ég treysti því að fljótlega fari fram fundur í ráðuneytinu um hvernig kröftum mínum í þeim slag verður best varið. En (Gripið fram í: Í fyrramálið.) — í fyrramálið, ég mæti snemma — þar til, eins og ég segi, held ég að þessi tiltekt sé nauðsynleg, en ég held að við þurfum að vera á verði gagnvart því að hún sé ekki að festa í sessi kerfi sem mikilvægir hagsmunaaðilar telja að sé kannski ekki nógu gott eins og það er.