146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, þingflokksformanni Vinstri grænna, og fleirum sem hafa talað hér um áhyggjur af ummælum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra undanfarið um þingið. Margir hafa það á tilfinningunni að ýmislegt sé að breytast til verri vegar í íslensku samfélagi og hallast meira að því eins og það var hér fyrir hrun. Eitt af því sem var gagnrýnt í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í þingmannaskýrslunni líka sem vann úr skýrslu rannsóknarnefndarinnar var ráðherraræði, það þurfti að efla þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir að þing sé stjórnlaust þegar engin ríkisstjórn er með meiri hluta í þinginu fer aðeins um mann. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra og ítreka spurningar sem fram hafa komið hér áður: Hefur forseti rætt þessi mál við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra ?