146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:07]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Það er tekið eftir því þegar hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra talar um að þingið sé stjórnlaust og siðlaust. Við þingmenn köllum eftir því gagnvart hæstv. forseta að hann taki það mál upp gagnvart hæstv. fjármálaráðherra. Það er ekki eðlilegt að þingið sitji undir slíkum áburði. Þessi orð féllu í samhengi við það að fram hefur komið gífurleg gagnrýni á að samgönguáætlun sé ekki fjármögnuð. Samgönguáætlun er lögformlegt plagg alveg eins og þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun og fjármálastefnu sem við eigum að vinna eftir í opinberum fjármálum, eftir nýju verklagi. Við verðum að taka alvarlega stöðu þingsins og samgönguáætlun sem samþykkt er og er lögformlegt plagg. Menn geta ekkert skotið sér undan því og sagt að (Forseti hringir.) ákvarðanir sem hafa verið teknar á þessum vettvangi hafi verið teknar undir stjórnlausu þingi. Ég treysti því að hæstv. forseti láti þetta ekki yfir okkur ganga sem vinnum á þessum vettvangi.