146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:13]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Frú forseti. Ég kem upp til að bregðast aðeins við athugasemdum hv. þm. Pawels Bartoszeks og í raun og veru hv. þm. Eyglóar Harðardóttur líka, sem ég tek undir með, það er alveg rétt að við eigum að hafa fleiri tól en umræðuna hér inni. Ég fagna því ef við ætlum að verja tíma í að ræða þetta og komast að sameiginlegri niðurstöðu um hvernig við viljum að þingstörfum sé háttað, en á sama tíma tel ég að það ætti alveg að vera möguleiki að birta fram í tímann dagskrá sem við vitum auðvitað öll að getur breyst. Þá erum við alla vega með einhverja hugmynd um hvaða þingmannamál eru að koma á dagskrá, hvaða frumvarp er að koma í umræðu, þannig að við höfum yfirlit yfir það, alltaf með það í huga að ef umræðan lengist breytist það. Það segir sig sjálft. En það ætti alveg að vera hægt að koma með drög fyrir fram svo almenningur geti líka verið upplýstur um hvaða mál eru mögulega að fara í umræðu og þar af leiðandi haft tíma til að senda okkur þingmönnum athugasemdir (Forseti hringir.) sem gætu verið mjög mikilvægar í umræðunni hér á þingi. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)