146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:16]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem mig langar að ræða hér, annað snýr að orðum hæstv. fjármálaráðherra. Hann ber vissulega einn ábyrgð á orðum sínum, en hann er hins vegar í einum tilteknum flokki. Mér leikur forvitni á að vita hvað samflokksmönnum og -konum hæstv. fjármálaráðherra finnst um þessi orð hans. Það er kjörið tækifæri fyrir viðkomandi að kveðja sér hljóðs hér undir liðnum fundarstjórn forseta í þessum sal, í þessum stóli, bara núna á eftir þess vegna.

Hitt málið snýr að dagskránni. Í námi mínu við þýskan háskóla kynntist ég þýskum prófessor í málvísindum sem hafði þann háttinn á að hann skrifaði nöfn nemenda sem skilað höfðu inn ritgerðum sem voru langar, og hugsanlega leiðinlegar margar hverjar, og hengdi á hurðina hjá sér. Þá gátu allir séð hvar í röðinni þeir (Forseti hringir.) voru. Þeir gátu ekki séð hvenær prófessorinn væri búinn að fara yfir ritgerðina, en þeir gátu alla vega séð röðina og gert sér (Forseti hringir.) í hugarlund hvenær að þeim kæmi. [Hlátur í þingsal.]