146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:18]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Ég bý einn, er einhleypur maður og á lítinn hund. Ég tala mikið við sjálfan mig og hundinn [Hlátur í þingsal.] þannig að ég er því (Gripið fram í.) allnokkuð vanur að mér sé ekki svarað þegar ég tala. Hins vegar verð ég að játa að mér finnst miður að virðulegur forseti skuli ekki svara mér og fleiri hv. þingmönnum þegar beinum spurningum er beint til hennar hvað varðar það hvort hæstv. forseti hafi rætt þau mál við hæstv. fjármálaráðherra um að hann geri grein fyrir þeim orðum sínum sem við höfum gert hér að umtalsefni síðustu tvo daga.

Ég kalla eftir því enn einu sinni að hæstv. forseti, sem er leiðtogi okkar í þinginu, standi vörð um virðingu þingsins. Í því skyni kveð ég virðulegan forseta með orðunum: Heill forseta vorum.