146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:20]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta fyrir sitt viðbragð þó að það hafi verið svona nokkuð í lágmarki miðað við tilefnið, verð ég að segja. Hún greinir okkur frá því að hún hafi átt samtal við hæstv. ráðherra en ekki kemur fram í orðum hennar um hvað það samtal hafi snúist. Ég vil biðja forseta um að leiða okkur í allan sannleika um það hvaða afstöðu hún hefur til orða ráðherrans. Í fyrsta lagi varðandi það að ræða samþykkt samgönguáætlunar með þeim orðum að það hafi verið siðlaust athæfi af hálfu þingsins. Í öðru lagi þau orð þess sama ráðherra að kalla það mistök að ljúka við samþykkt fjárlaga og að þingið hafi verið stjórnlaust. Það eru þessi þrjú atriði sem ég óska eftir að hæstv. forseti bregðist við, hvort hún hafi gert ráðherranum grein fyrir því að þessi orð væru óásættanleg.