146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orð fjármálaráðherra um Alþingi, dagskrá þingsins o.fl.

[15:26]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég get varla orða bundist vegna ummæla hv. þm. Pawels Bartoszeks um að við værum bara að gera þetta í einhverjum popúlískum leik. Gerir hv. þingmaður sér grein fyrir því í hvaða ástandi vegakerfið er? Það þarf u.þ.b. 10 milljarða bara til að viðhalda hringveginum, þjóðvegi nr. 1. Heldur hv. þingmaður virkilega að okkur hafi þótt gaman í hv. umhverfis- og samgöngunefnd að taka á móti Vegagerðinni og öllum sveitarfélögunum og heyra það að þessi vegur og hinn vegur séu að grotna niður? Nei, þetta er andvaraleysi, tilvistarkreppa, þetta er nýfrjálshyggja ríkisstjórnarinnar sem vill ekki setja skattana, vill ekki eyða í það sem er sameiginlegt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Vegakerfið er sameiginlegt, það var ekki hluti af pólitískum leik eða popúlisma sem við fórum í þá aðgerð að setja aukalega 10 milljarða í samgönguáætlun, þannig að ég frábið mér svona orðalag og svona ummæli.