146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Svo ég bregðist fyrst við ræðu síðasta ræðumanns hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur þá tek ég undir hamingjuóskir til kvenna í tilefni dagsins. En varðandi umfjöllun um rammaáætlun sem hún kom inn á líka í sinni ræðu er rétt að geta þess, fyrst eftir því er leitað, að við umfjöllun um málið komu fram af hálfu einstakra þingmanna Sjálfstæðisflokksins athugasemdir og fyrirvarar sem snertu einstaka liði rammaáætlunar. Þar er ekki um að ræða fyrirvara við málið í heild heldur studdi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins framlagningu málsins og mun taka þátt í afgreiðslu þess þó að skoðanir séu vissulega skiptar um einstaka liði af þeim fjöldamörgu liðum sem getið er um í rammaáætlun í hinum ýmsu flokkum.

Að lokum vildi ég í tilefni af ummælum hv. þm. Halldóru Mogensen áðan geta þess að ég tel að Ísland sé á margan hátt á réttri leið. Sú svarta mynd sem hún dró upp af ástandi mála hér á landi er alls ekki réttmæt að mínu mati. Okkur miðar vel áfram á mörgum sviðum. Við erum ekki komin á áfangastað og við vitum að á fjöldamörgum sviðum, m.a. þeim sem hún nefndi sérstaklega í sínu máli, eigum við mörg verkefni óunnin. En það er hins vegar fullkomlega úr takti við veruleikann að mála hlutina jafn dökkum litum og hún gerði í ræðu sinni.