146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:46]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Ég óska konum til hamingju með alþjóðlegan baráttudag kvenna. Jafnrétti kynjanna er svo sannarlega mikilvægt fyrir okkur öll.

Verkefnin í jafnréttisbaráttunni eru auðvitað fjölmörg brýn, t.d. baráttan gegn kynbundnu ofbeldi og launamun. Mig langar þó að nefna mál sem var í fréttum nýlega. Það skiptir bæði kynin miklu máli en varðar einkum heilsu kvenna. Þá er það gott dæmi um frumlega hugsun og nýtingu hugvitsins í þágu mannkynsins. Í náinni framtíð munum við standa frammi fyrir stórkostlegum þjóðfélagsbreytingum vegna tæknibreytinga. Eiginleikar eins og sköpun og hugmyndaauðgi munu verða sífellt mikilvægari. Því er aldrei hamrað nógu mikið á því að við leggjum rækt við þá eiginleika.

Kjarneðlisfræðingurinn Elina Berglund og eiginmaður hennar hafa fundið upp síma sem er í raun getnaðarvörn. Það virkar þannig að konur mæla líkamshita sinn með hitamæli undir tungunni á hverjum morgni og færa niðurstöðurnar í appið. Appið reiknar út hvaða daga er óhætt að stunda samfarir án getnaðarvarna. Um 150 þúsund konur í 161 landi nota forritið sem er sagt vera jafn öruggt og pillan. Það hefur nú verið vottað af viðurkenndri vottunarstofu í Þýskalandi og telst fullgild getnaðarvörn. Þetta er dæmi um snilldaruppgötvun sem í senn hefur jafngóða virkni og eldri aðferðir, kostar sáralítið en leysir konur undan hvimleiðum aukaverkunum pillunnar. Þar má nefna ógleði, uppköst, hækkaðan blóðþrýsting, bláæðabólgu og kransæðasjúkdóma, og síðan sjaldgæfari einkenni eins og heilablæðingu og sérstaka augnsjúkdóma svo eitthvað sé nefnt.

Það vekur athygli að uppfinningakonan er ekki heilbrigðisstarfsmaður heldur kjarneðlisfræðingur. Sköpunargáfan bindur nefnilega ekki trúss sitt við afmarkaðar greinar heldur gerir hugmyndaríkum einstaklingum kleift að finna snjallar lausnir á ólíkum viðfangsefnum með frumlegri hugsun. Hér hefur hugvitinu tekist að skipta út lyfjum með tækni.

Frú forseti. Þetta var óður til hinnar einu ótæmandi auðlindar okkar, hugvitsins.