146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

störf þingsins.

[15:55]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Frú forseti. Kæru konur, og þá sérstaklega elsku mamma mín, innilega til hamingju með daginn. Mig langar að vekja athygli þingsins hér í dag og ríkisstjórnarinnar á mikilvægi þess að við greinum betur á milli EES-lagafrumvarpa annars vegar og hins vegar mögulegra séríslenskra viðbóta eða útfærslna sem einhverjir kunna að vilja gera í tengslum við EES-frumvörpin. Í gegnum tíðina hefur borið á því að sú leið hafi verið farin að bæta inn í EES-lagafrumvörp séríslenskum útfærslum eða viðbótum eða kvöðum sem í einhverjum tilfellum ganga lengra en upprunalega frumvarpið gerir ráð fyrir. Þessi aðferðafræði hefur ýtt undir vantraust milli þingsins og framkvæmdarvaldsins við meðferð og afgreiðslu EES-mála hér í þinginu. Fólk hefur óttast að ráðherra kunni í einhverjum tilfellum að reyna að lauma einhverju inn í landslög sem ekki er kveðið á um í upprunalegri mynd þess EES-frumvarps sem um ræðir og til afgreiðslu er. Í einhverjum tilfellum hefur sá ótti verið rökstuddur.

Ég vil því beina því til hæstv. ríkisstjórnar, og brýna hana til þess, að taka upp það góða verklag að EES-innleiðingarfrumvörp séu hrein innleiðingarfrumvörp og innihaldi ekki séríslensk ákvæði af neinum toga. Ef ástæða þykir til að ganga lengra á einhverju sviði sem EES-samningurinn tekur til er mun betri bragur á því að hlutaðeigandi ráðuneyti leggi þá fram sérfrumvarp þess efnis. Betri löggjöf með betri vinnubrögðum er til þess fallin að skapa meira og betra traust milli þings og ríkisstjórnar og þá aftur á milli stjórnvalda og þjóðarinnar.