146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:15]
Horfa

Einar Brynjólfsson (P):

Virðulegur forseti. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stendur m.a., með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að efla kennaramenntun til að bregðast við fækkun kennara og minnkandi aðsókn í kennaranám fyrir leikskóla og grunn- og framhaldsskóla.“

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherrann: Hvað þýða þessi orð? Þarf að efla kennaramenntun? Er hún ómöguleg í dag? Hvernig eflum við hana ef hún er ómöguleg? Verður inntaki námsins breytt? Styttum við námið? Lengjum við námið? Hvað gerum við? Liggur vandinn í minnkandi aðsókn í þetta tiltekna kennaranám? Eða hvað? Getur hugsast að hann liggi annars staðar?

Ég veit reyndar að meðalaldur kennara er nokkuð hár þannig að það mun þurfa að eiga sér stað allmikil endurnýjun innan fárra ára. En væri ekki rétt að spyrja hvers vegna rúmlega helmingur menntaðra grunnskólakennara kýs að starfa annars staðar en á vettvangi grunnskólanna? Hvað ætlar ráðherrann að gera í því?