146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:18]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Þetta er ágætisumræða. Ég vil grípa boltann frá hv. þm. Nichole Leigh Mosty og hv. þm. Einari Brynjólfssyni, þ.e. að ræða aðeins fyrirsjáanlegan kennaraskort, sem er reyndar þegar til staðar og á eftir að aukast, og mögulegar breytingar á kennaranáminu. Ég tel ekki að stytta eigi námið. Ég er ánægð með þá breytingu að námið hafi verið lengt, en á sama tíma hefur aðsókn í það minnkað töluvert. Við þurfum náttúrlega að skoða það og ég tek undir með hv. þingmönnum og spyr ráðherra: Hyggst hann bregðast við þessu? Mun hann mögulega íhuga að breyta náminu á þann hátt að síðari hluti þess gæti t.d. verið launað starfsnám? Ég tel að það sé leið sem við ættum að skoða vel.

Varðandi 25 ára regluna langar mig líka til að spyrja hæstv. ráðherra hvort brottfall hafi minnkað eftir að sú regla var tekin upp. Ég tel að breytingin hafi verið afar jákvæð, ég trúi því að breytingarnar muni auka skilvirkni og að við munum geta nýtt fjármuni betur í menntakerfi okkar. En mig langar til að nefna það hér og benda hæstv. ráðherra á að ég hef heyrt sögur af því að það er mjög misjafnt hversu vel framhaldsskólar hafi staðið sig varðandi það að kynna fyrir tilvonandi nemum að þessi takmörkun eigi ekki við verknám, eins og hæstv. ráðherra nefndi. Til dæmis hef ég heyrt sögur frá VMA á Akureyri um að fólki hafi hreinlega verið vísað frá þegar það var orðið 26–27 ára og hugðist klára verknám sitt þar. Skólarnir standa sig ekki jafn vel að halda þessu á lofti. Ég vil benda hæstv. ráðherra á það ef hann veit það ekki nú þegar að hann getur þá beitt sér fyrir því að þetta verði kynnt enn betur en nú er.