146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:23]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Eins og fleiri hv. þingmenn hafa komið inn á segir í samstarfssáttmála ríkisstjórnarinnar að traust menntun óháð efnahag sé mikilvæg forsenda þess að hver og einn einstaklingur fá að blómstra. En þar segir jafnframt, með leyfi forseta:

„Styðja skal háskólana í að halda uppi gæðum og standast alþjóðlega samkeppni um leið og samvinna og samhæfing íslenskra háskóla og vísindastofnana verður aukin. Endurskoða þarf reiknilíkön skólakerfisins með tilliti til mismunandi kostnaðar og fjölbreytts nemendahóps.“

Mig langar að staldra við þennan punkt, reiknilíkönin, því að þótt það sé freistandi að ræða aðallega aðra þætti menntakerfisins, gæði og fjölbreytni menntunar, mikilvægi kennaramenntunar og kennarastarfsins og að námsstyrkjakerfi með fullri framfærslu verði komið á, skiptir líka máli að huga að fyrirkomulagi stoðgreindarkerfisins sjálfs og ræða um reiknilíkön.

Í skýrslu ráðgjafarfyrirtækisins McKinsey og samráðshóps um aukna hagsæld sem var settur á fót í kjölfarið um hvernig er hægt að auka framleiðni til að standa undir eins góðu samfélagi og hægt er til framtíðar var t.d. fjallað um mikilvægi þess að gera nám til stúdentsprófs styttra og skilvirkara. Þessi angi málsins í umræðu um menntamál verður líka að hafa vægi á þeim forsendum. Ákvarðanir um að t.d. búa til hvata til að fólk ljúki háskólanámi fyrr eru því til skoðunar til að nýta fjármuni, tíma og mannskap í menntakerfinu betur, ekki af neinum öðrum ástæðum, heldur í þágu nemenda, kennara og menntakerfisins alls til framtíðar.