146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

menntamál og stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar.

[16:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Ég á það á hættu að hljóma eins og biluð plata þegar ég hef mál mitt á því að vitna í stjórnarsáttmálann, með leyfi forseta:

„Traust menntun, óháð efnahag, er mikilvæg forsenda þess að hver og einn einstaklingur fái að blómstra.“

En ef eitthvað er þess virði að fá að hljóma eins og biluð plata eru það líklegast setningar á borð við þessa.

Til þess að uppfylla þetta þurfum við einfaldlega að búa til aðstæður þar sem hver og einn einstaklingur fær að blómstra og margt þarf að koma til. Mig langar, virðulegi forseti að staldra við þátt sem ég tel skipta máli og það er sú fjölbreytni og nýsköpun sem getur hlotist af því að nýta kosti sjálfstætt starfandi skóla. Það er mikilvægara nú en oft áður að styðja við fjölbreytta menntun, ekki síst fyrir börn og unglinga á mótunarárum. Þar kemur þjóðfélagsgerðin til og margar ytri aðstæður. Og það er hægt að fara ýmsar leiðir í þessu á meðan kerfið er ekki hindrun. Reynslan sýnir okkur að meðal kosta sjálfstætt starfandi skóla, sem oft eru litlar einingar, eru þeir að þetta er gjarnan vettvangur nýsköpunar og þróunar.

Við vitum, eins og margoft hefur komið fram og líka verið drepið á í umræðunni, að það er áhyggjuefni hvað kennarastéttin er að eldast án þess að nýliðun sé nægileg. Ungir kennarar og kennarar almennt auðvitað eru mjög vel menntaðir hér á landi og margir vilja eðlilega fá tækifæri til að komast að borðinu þar sem ákvarðanir eru teknar, hafa áhrif á nýsköpun og þróun á eigin áherslusviði. Þeir vilja gjarnan starfsumhverfi þar sem möguleiki er að koma að breytingum, nýjungum og nýsköpun.

Fjölbreytni í rekstrarformi skóla gefur þannig ekki eingöngu foreldrunum val fyrir hönd barna sinna heldur einnig kennurum og stjórnendum val á starfsumhverfinu.

Það er mikilvægt að verknám, listnám og tækninám hafi almennilegt vægi í námsvali sem grunnskólanemendum stendur til boða. Minni rekstrareiningar sem leggja áherslu á nýsköpun í þessum þáttum (Forseti hringir.) sem og öðrum eru nauðsynlegur hluti af fjölbreyttu menntakerfi þar sem jafnræði nemenda og valfrelsi er í hávegum haft. En það eru auðvitað ekki bara sjálfstætt starfandi skólarnir sem eiga og geta lagt áherslu á nýsköpun hér. Ég myndi vilja sjá stutt við, virðulegur forseti og hæstv. ráðherra, (Forseti hringir.) skólaumhverfið almennt með þróunarstyrkjum, t.d. í formi samkeppnissjóða (Forseti hringir.) þar sem bæði opinbera kerfið og sjálfstætt starfandi gætu sótt um verkefni sem höfðuðu til ungs fólks og nýsköpunar. Það væri að mínu mati álitleg leið til að auka við fjölbreytni í verkefnum kennara (Forseti hringir.) og væri jafnframt skref til að tryggja að allir einstaklingar fengju menntun við hæfi í sífellt fjölbreyttari heimi.