146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[16:41]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga hér við mig samtal um framtíðarsýn stjórnvalda fyrir skapandi greinar. Skapandi greinar eru kannski tiltölulega nýtt hugtak í íslensku máli en við getum kallað það einhvers konar yfirheiti yfir það sem við annars vegar getum kallað listir og hins vegar þær hugvitsgreinar sem við tengjum sérstaklega við sköpun.

Í stjórnarsáttmála, stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, er rætt um að menning og skapandi greinar verði sífellt mikilvægari hluti atvinnulífs og verðmætasköpunar í íslensku samfélagi og að ríkisstjórnin muni leggja sig fram um að búa skapandi greinum vandaða umgjörð og gott starfsumhverfi. Sérstaklega er talað um aukinn stuðning við rannsóknir og þróun á þessu sviði sem og ákveðnar aðgerðir til að tryggja höfundarréttarvarið efni.

Mig langar í fyrsta lagi að spyrja hæstv. ráðherra um þessar rannsóknir sem sérstaklega er vikið að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Er ætlunin að gefa listum sérstakt fagráð innan rannsóknarsjóðs? Er ætlunin að auka við fjármuni til að geta eflt rannsóknir á listum og skapandi greinum innan þess regluverks? Hvernig stendur til að efla þennan þátt atvinnulífsins? Það er vissulega rétt að velta hinna skapandi greina var metin á árinu 2011 og var árið 2009 í kringum 180–190 milljarðar, talsvert meira en áætlað hafði verið fram að því og raunar hafði engum dottið í hug að veltan gæti verið svona mikil. En gildi þessara greina er ekki bara efnahagslegt. Það er það sem við þurfum alltaf að hafa í huga, að þegar við ræðum hinar skapandi greinar erum við líka að ræða listirnar sem hafa samfélagslegt gildi, gildi í sjálfu sér. Þær skipta okkur máli sem samfélag, sem einstaklinga og er ekki bara hægt að meta út frá hinum efnahagslega mælikvarða.

En fyrst þetta er rætt með þessum hætti í stefnuyfirlýsingu langar mig að spyrja hæstv. ráðherra: Munum við sjá sóknaráætlun fyrir listirnar og hinar skapandi greinar? Munum við sjá einhverja slíka sóknaráætlun í ríkisfjármálaáætlun sem verður lögð fyrir? Er verið að gera ráð fyrir því til að mynda að fjölga mánuðum innan listamannalauna? Er gert ráð fyrir að efla sérstaklega kynningarmiðstöðvar á sviði ólíkra listgreina? Hvernig nákvæmlega sér hæstv. ráðherra fyrir sér að uppfylla þær væntingar sem gefnar eru í stjórnarsáttmálanum?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það sem lýtur að stjórnsýslu skapandi greina sem skiptist á milli allmargra ráðuneyta. Á sínum tíma var hafin vinna í ráðuneyti mennta- og menningarmála við að samræma stjórnsýslu hinna skapandi greina. Því að þær eiga ekki bara sitt heimili í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, þær hafa líka verið í atvinnuvegaráðuneyti, utanríkisráðuneyti í gegnum Íslandsstofu, þær voru um tíma í forsætisráðuneyti en ekki lengur eftir að þjóðmenningin var færð yfir; en við sjáum að stjórnkerfið gæti verið talsvert samræmdara og sýnin skýrari.

Það er kannski ekki síst ástæðan fyrir því að listamenn hittu stjórnmálamenn fyrir kosningar og gerðu kröfu eða lögðu fram ósk um sérstakt menningarmálaráðuneyti. Sú varð ekki raunin hjá núverandi ríkisstjórn. En hvernig sér ráðherra fyrir sér að við getum haft skýrari sýn, skýrari stjórnsýslu, í kringum þessar mikilvægu greinar sem bera þau sérkenni að þær eru í senn atvinnugrein en hafa líka sitt sérstaka samfélagslega vægi og sitt listræna vægi í sjálfum sér. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um hans sýn á stjórnsýsluna.

Að lokum langar mig að spyrja um skráningu tölfræðiupplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífinu. Því eitt af því sem öll þessi vinna hefur sýnt og skilað er að sú skráning er með öllu ófullnægjandi. Það er erfitt að nálgast töluleg gögn um þessar greinar. Það er eitthvað sem má kippa í liðinn með tiltölulega einföldum hætti en auðvitað kostar það peninga eins og allt annað. Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðherra um það. Að lokum vil ég segja að þessir þættir eru kannski ekki nægjanlega oft ræddir hér á Alþingi. En við eigum menningarstefnu frá árinu 2013, sem Alþingi samþykkti og hefur verið fylgt eftir að einhverju leyti í ráðuneyti hæstv. ráðherra. Ég segi það fyrir mína parta að ég hefði viljað sjá meiri kraft í þeirri eftirfylgni því að það sem við leggjum til þessa málaflokks, menningarinnar, listanna, hinna skapandi greina, skilar sér margfalt til baka. Ekki bara í krónum talið heldur líka í betra samfélagi. Þetta er eitt af því sem skiptir verulegu máli þegar við skoðum það af hverju fólk velur sér búsetu á tilteknum stöðum úti um land, þá er það menningarstarf og listastarf sem skiptir þar verulegu máli. Ég held því að þetta sé mikilvægt efni og mikilvægt að við ræðum meira á vettvangi Alþingis út frá öllum þessum ólíku samfélagslegu og efnahagslegu breytum.