146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[16:47]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni það að hefja máls á málefnum skapandi greina. Ég tek undir með hv. þingmanni í því að það er viðfangsefni sem kemur inn núna, sérstaklega á síðari árum, með miklu sterkari hætti en áður var. Umræðan er vaxandi en vera kann að við ættum að gera meira af því að ræða þennan málaflokk í þessum sal. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður bendir á, þetta er í rauninni atvinnustarfsemi. Við sjáum það að listir og menningarstarf af ýmsum toga er grunnur að miklum umsvifum. Afurðir fólks á þessu sviði ganga kaupum og sölum, eru seldar um allan heim. Hluti af þessu er einfaldlega mjög mikil og umfangsmikil atvinnustarfsemi sem jafnframt blómgar allt líf fólks og auðgar það með miklum og góðum hætti.

Það hefur verið unnið að því á undanförnum árum að efla vísindarannsóknir og nýsköpun hér á landi. Rannsóknasjóður og Tækniþróunarsjóður hafa fengið töluvert hærri fjárhæðir nú en áður var. Mig minnir að það séu tæpir 3 milljarðar sem þetta hækkaði um á síðasta ári. Og af því að hér var spurt hvort til stæði að koma á laggirnar fagráði á sviði hugvísinda og lista skal upplýst að það var gert á árinu 2015. Þá var sömuleiðis skipað annað fagráð á sviði félagsvísinda. Rökstuðningurinn fyrir þessu var m.a. sá, að mér er tjáð, til að auka sýnileika og vægi vísindarannsóknar á sviði lista í sjóðnum. Varðandi Tækniþróunarsjóðinn veit ég að þar hefur orðið áherslubreyting í þágu skapandi greina og hönnunar sérstaklega, þó svo að það sé á málasviði iðnaðar- og nýsköpunarráðherra að svara því.

Ég vil nefna líka að hafa ber í huga að þeir sem sækja um í þessu keppa á grundvelli gæða og krafna. Það er ekkert gefið eftir í þeim efnum. Öll sú vinna sem þar er lögð í er mjög góð og hefur í raun orðið uppspretta margra góðra hugverka. Þegar spurt er um skráningu eru í gildandi fjármálaáætlun og fjárlögum ársins sett markmið sem tengjast öflun á tölfræði og menningargögnum sem snúa að starfsemi á sviði lista og menningar, ýmsar upplýsingar sem á árum áður var ekki aflað með skipulegum hætti munu líta dagsins ljós í fjármálaáætlun ársins 2018–2022 sem verður lögð fyrir fljótlega. Þar á m.a. að reyna að gefa upplýsingar um gæði þeirrar þjónustu sem borgarar sækja til menningarstofnana.

Það er mjög áhugavert að lesa skrif doktors Ágústs Einarssonar um þessi efni, sérstaklega bók hans um menningarhagfræði frá árinu 2012. Hann er sá einstaklingur sem hefur skrifað hvað mest um þessa þætti og er mjög fróðlegt að kynna sér sjónarmið hans í þeim efnum. Í gildandi stefnu um opinber fjármál 2017–2021 kemur fram sú stefna innan málasviðs menningar og lista að efla og jafna tækifæri til nýsköpunar innan allra listgreina í gegnum sjóði sem veita styrki til verkefna á sviði menningar og lista svo að nýsköpun á sviði menningar og lista búi við hagstæð fjárhagsleg skilyrði og eigi möguleika á að ná til almennings. Það er í raun hægt að svara því til þegar spurt er um fjölgun mánaðarlauna listamanna að því hefur verið mætt með ýmsum öðrum hætti en að fjölga mánaðarlaununum, t.d. með því að á síðustu tveimur, þremur árum hafa verið stofnaðir enn fleiri sjóðir en voru til áður á ýmsum sviðum. Þeir eru raunar í mínum huga orðnir töluvert margir og auka líkurnar á að við höfum ekki fulla yfirsýn yfir það með hvaða hætti við styðjum við þá starfsemi sem undir heyrir.

Ég sé að ég er á falla á tíma við að svara hv. þingmanni og mun þá reyna í síðara svari mínu að botna svör við þeim spurningum sem ég á ósvarað.