146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[16:54]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir að hefja máls á þessu mikilvæga og skemmtilega efni sem er framtíðarsýn okkar fyrir skapandi greinar. Þar er um margt að velja en ég ætla að verja mínum mínútum, sekúndum sem eftir eru, í að fjalla aðeins um þessa spurningu: Stendur til að efla reglulega skráningu upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í atvinnulífinu?

Við erum almennt á þeim stað að einhugur ríkir um að skapandi greinar séu einn helsti vaxtarbroddur nýsköpunar og mikilvæg vaxandi atvinnugrein hér á landi. Varðandi skráningu upplýsinga um hlut lista og skapandi greina í þessu sama atvinnulífi skilst mér að við höfum ekki yfir nýrri tölum að ráða en frá 2010. Ótrúlegt en satt. Hæstv. menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson hefur nú boðað hér betri tíð, gerði það rétt áðan, og það er vel. Það er nefnilega nauðsynlegt að gera hér bragarbót á og búa svo um hnútana að hlutur lista og menningar og skapandi greina verði skráður og að framlag greinarinnar til þróunar efnahagslífsins verði skráð með sambærilegum hætti og gildir um aðrar atvinnugreinar. Það er nauðsynlegt til þess að búa þessum skapandi greinum vandaða umgjörð og gott starfsumhverfi, svo vitnað sé í stjórnarsáttmálann.

Eins er skráningin mikilvægt skref í þeirri viðleitni okkar að vera samkeppnishæf við önnur lönd í þessari vaxandi atvinnugrein. Hún verður nefnilega sífellt mikilvægari í verðmætasköpun íslensks atvinnulífs. Ég nefni sérstaklega samspil menningar og ferðaþjónustu en fyrir utan náttúru okkar eru menningartengd málefni ein helsta ástæðan fyrir komu ferðamanna til landsins.

Það er ástæða til að nefna hér að það er til nýleg alþjóðleg kortlagning á skapandi greinum og væri verðugt verkefni að koma Íslandi sem fyrst inn á það kort. Líklega væri endurskoðun stjórnsýslu skapandi greina líka gott innlegg í þessa vinnu, en eins og staðan er núna er málefnum skapandi greina dreift á mörg ráðuneyti án þess að samræmd stjórnsýsla og heildstæð stefna sé þar, þar sem m.a. er til staðar skilningur á starfsumhverfi listamanna. (Forseti hringir.) Hér eigum við ótakmarkaða auðlind (Forseti hringir.) á svo margvíslegan máta. Við ætlum að styðja við hana, eða eins og segir í stjórnarsáttmála, með leyfi forseta:

„Myndarlega verður stutt (Forseti hringir.) við rannsóknir og þróun og hlutverk samkeppnissjóða víkkað út til rannsókna á sviði skapandi greina.“