146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

framtíðarsýn fyrir skapandi greinar.

[17:03]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Frú forseti. Eitt háttvirt skáldið sagði hér fyrr í dag að hugvitið væri eina ótæmandi auðlindin sem við ættum. Það á ekki síst við um skapandi greinar. En til að við getum nýtt þessa auðlind eru öflugir háskólar nauðsyn skapandi greinum eins og öðrum. Það verður að segjast eins og er að staðan er ekki nógu björt hjá Listaháskóla Íslands og hefur aldrei verið. Þessi skóli hefur verið hálfgert olnbogabarn ríkisins og aldrei verið fullfjármagnaður. Nú undanfarið höfum við fengið að sjá myndir af grútmygluðu, hripleku og óhentugu húsnæði skólans sem minnir okkur á hversu löngu tímabært er að byggja myndarlega yfir hann, alveg eins og það er löngu tímabært að fullfjármagna hann. Það er spurning hvort kaldhæðni örlaganna hagi því svo að hæstv. ráðherra fari úr sömu stöðu með Landspítalann í handónýtu húsnæði og illa fjármagnaðan yfir í það að þurfa að leysa sömu vandamál fyrir Listaháskóla Íslands.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann hafi tekið til athugunar þær hugmyndir núna meðan ráðuneytið er að móta sér stefnu fyrir Vísinda- og tækniráð næstu ára, sem væntanlega verður samþykkt einhvern tímann á þessu ári, að sú stefna nái til listrannsókna, nái til þess grundvallar sem skapandi greinar byggja á. Það er alveg jafn mikið hagsmunaatriði að þær rannsóknir séu hluti af heildarstefnumörkun hins opinbera varðandi vísinda- og tæknimál eins og nokkur önnur fræðigrein.