146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti frá fjárlaganefnd um frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2015.

Tilgangur frumvarpsins er að leita staðfestingar Alþingis á ríkisreikningi fyrir árið 2015. Í lokafjárlögum er tekin ákvörðun um ráðstöfun fjárheimilda í árslok, þ.e. hvort árslokastöðurnar skuli falla niður eða flytjast til næsta árs.

Uppbygging frumvarpsins er að mestu leyti hefðbundin sem felur í sér tvær lagagreinar auk gildistökugreinar. Annars vegar er gerð tillaga um breytingar fjárveitinga vegna frávika ríkistekna og hins vegar eru tillögur um niðurfellingar á árslokastöðu fjárlagaliða. Að vanda fylgja frumvarpinu tvö fylgiskjöl. Hið fyrra er yfirlit um breytingar á fjárheimildum ársins 2016 vegna flutnings á árslokastöðu 2015. Hið síðara er yfirlit um talnagrunn frumvarpsins.

Í lögum um opinber fjármál, nr. 123/2015, er ekki gert ráð fyrir lokafjárlögum í óbreyttri mynd. Þess í stað er í 58. gr. laganna kveðið á um að leggja skuli fram frumvarp á Alþingi til staðfestingar á ríkisreikningi og að í greinargerð skuli fjallað um niðurstöðutölur reikningsins og gera grein fyrir frávikum frá samþykktum heimildum Alþingis. Frumvarpið sem við fjöllum um er næstsíðasta frumvarp til lokafjárlaga sem byggist á eldri lögum um fjármál ríkisins, svokölluðum fjárreiðulögum.

Virðulegi forseti. Ég rek ekki upp úr nefndarálitinu þær töflur sem fylgja með, en geri hér að umtalsefni einkum tvö atriði. Í fyrsta lagi er í þessu frumvarpi óvenjumikið um afléttingu á uppsöfnuðum rekstrarhalla. Í frumvarpinu er mikið gert af því að færa niðurstöðu ríkisbókhaldsins eða ríkisreikningsins og undirbúa hann undir það umhverfi sem nýjum lögum um opinber fjárlög fylgir.

Tillögurnar ná til uppsafnaðs rekstrarvanda stofnana í þeim tilfellum þar sem talið er að fjárhagsvandinn sé meiri en svo að raunhæft sé að viðkomandi stofnun geti unnið á honum að óbreyttum fjárheimildum án þess að stórlækka þjónustustig stofnunarinnar, eins og segir í textanum sem fylgdi frumvarpinu.

Það er vandmeðfarið mál þegar rekstrarhalla er aflétt með svo almennum hætti sem lagt er til í frumvarpinu. Hv. fjárlaganefnd ræddi það ítarlega og fór yfir þessar niðurfellingar sem hér eru lagðar fram og reyndi eftir mætti að rannsaka þær. Það má segja um þessar niðurfellingar og um lokafrágang á lokafjárlögum árið 2015 að það beri að skoða í samhengi við fjárlagagerð er unnin var í desember. Það er ákaflega óvenjulegt, virðulegi forseti, að svo sé en þannig var að þetta var látið spila saman, lokafjárlög 2015, fjáraukalög árið 2016 og síðan fjárlögin fyrir árið 2017. Því var gerð breytingartillaga við lokafjárlög árið 2015, sem ég geri nánar grein fyrir hér á eftir, en nefndin vill hins vegar undirstrika að við þessar miklu niðurfellingar ætlast nefndin að sjálfsögðu til þess að búið sé að færa fjárhag þeirra stofnana sem hér er gerð breytingartillaga um í það horf að þær geti betur tekist á við hina nýju stöðu og hið nýja umhverfi sem fylgir hinum nýju lögum. Nauðsynlegt er því að fjármála- og efnahagsráðuneytið geri athugun á því með hvaða hætti mögulegt væri að umbuna þeim stofnunum þar sem reksturinn er nær ávallt innan fjárheimilda ársins, segir í nefndaráliti okkar.

Við erum að vísa til þess, virðulegi forseti, að þegar við göngum svona fram, með því að fella niður hallarekstur stofnana — sem er vissulega í þessu frumvarpi í nokkrum tilfellum mjög veruleg niðurfelling — gleymum við oftar en ekki að fjalla um þær stofnanir og þá forstöðumenn og það starfsfólk sem heldur ríkisstofnunum og fjárlagaliðum innan þeirra heimilda sem fjárlög hverju sinni kveða á um.

Við höfum því beint því til fjármálaráðuneytisins að ræða það sérstaklega hvernig mætti hugsanlega í framtíðinni koma til móts við stjórnendur slíkra stofnana með aðgerðum sem verða þá frekari hvatning til að ná slíkum árangri. Auðvitað á annað verklag að fylgja í nýjum lögum sem við ætlumst þá til að verði tekið upp og haldi stofnuninni innan heimilda hverju sinni.

Nefndin vekur athygli á því að sérstök niðurfelling nú á rekstrarhalla er einsdæmi og á ekki að gefa fordæmi um næstu ár eða uppgjör seinni ára. Eins og ég hef áður rakið tengist tillagan nýjum lögum um opinber fjármál og tilgangurinn er að skapa ráðuneytum traustari grundvöll undir áætlanagerð og betri aðstæður til að uppfylla kröfur um hallalausan rekstur málaflokka við framkvæmd fjárlaga í breyttu lagaumhverfi frá og með árinu 2017.

Nýju lögin skerpa á ábyrgð ráðherra við framkvæmd fjárlaga og tilkoma varasjóða málefnasviða er ætlað að koma því sem næst í veg fyrir grípa þurfi til fjáraukalaga. Með afléttingu rekstrarhalla er þannig ekkert því til fyrirstöðu að fjárhagsstaða allra málaflokka verði framvegis því sem næst í jafnvægi. Nefndin undirstrikar að þar sem niðurfellingar rekstrarhalla eiga sér stað verður að tryggja að viðkomandi ráðuneyti geti sýnt fram á að útgjöld viðkomandi aðila hafi verið færð að fjárheimildum. Einstakir ráðherrar bera ótvíræða ábyrgð á að svo verði og mun nefndin fylgja eftir einstökum málum varðandi framkvæmdina eftir því sem þurfa þykir. Nefndin telur að skýra þurfi frekar stöðu fjárheimilda nokkurra viðfangsefna og mun óska skýringa frá einstökum ráðuneytum sem og fjármála- og efnahagsráðuneytinu eins og við á. Þess ber að geta að viðbrögð við þeim spurningum hafa þegar borist hv. fjárlaganefnd.

Rétt eins og ég nefndi, virðulegi forseti, þá tengdist meðferð lokafjárlaga 2015 meðferð fjáraukalaga 2016 og fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2017. Þar var samkomulag um að ganga lengra í niðurfellingu á rekstrarhalla heilbrigðisstofnana en kveðið var á um í frumvarpinu. Því fylgir hér breytingartillaga nefndarinnar svohljóðandi:

„Þegar frumvarpið var til umfjöllunar á Alþingi í desember sl. lagði þáverandi fjárlaganefnd til breytingar í þá veru að fella alveg niður halla Landspítalans, Sjúkrahússins á Akureyri, heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni. Núverandi nefnd gerir þær tillögur að sínum og í samræmi við þá ákvörðun er gerð tillaga um frekari niðurfellingar samkvæmt 2. gr. frumvarpsins. Þær aukast um samtals 457,5 millj. kr. hjá velferðarráðuneyti og sundurliðast á eftirfarandi hátt.“ — Gerð er grein fyrir þeirri sundurliðun í prentuðu nefndaráliti.

Það vekur athygli að Heilbrigðisstofnunar Vesturlands er ekki getið í þeim lista yfir heilbrigðisstofnanir sem breytingartillaga er gerð um og er það einfaldlega vegna þess að þar hefur rekstur verið í jafnvægi og því ekki hægt að fella þar niður halla. Það er eina heilbrigðisstofnunin sem hefur verið rekin með jafnvægi um árabil fyrir utan árið 2011 þegar hallinn var meiri en sem nam uppsöfnuðum afgangi. Rekstrarafgangur áranna 2013–2015 hefur náð að vinna upp fyrri hallarekstur.

Virðulegi forseti. Það er sérstök ástæða til að vekja athygli á þessari einstöku stöðu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands og þeim mikla og góða árangri sem starfsfólkið þar hefur náð. Við eigum að taka eftir því sem vel er gert í ríkisrekstrinum og í þessum stóra málaflokki, heilbrigðismálum, sem er svo oft hér til umfjöllunar og er viðkvæmur í eðli sínu vekur þessi fjárhagsstaða Heilbrigðisstofnunar Vesturlands sérstaka athygli. Það er ekki síst út af því sem fjárlaganefndin beinir því til fjármálaráðuneytis, í nefndaráliti sínu, að fjalla sérstaklega um þær stofnanir sem ná slíkum árangri, jafn góðum árangri og raun ber vitni.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með fyrrgreindum breytingum sem tillaga er gerð um í þessu þingskjali. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Björn Leví Gunnarsson og Silja Dögg Gunnarsdóttir tóku þátt í umfjöllun málsins og eru samþykk afgreiðslu þess, en undir nefndarálitið skrifa Hanna Katrín Friðriksson, Theodóra S. Þorsteinsdóttir, Páll Magnússon, Oddný G. Harðardóttir og Njáll Trausti Friðbertsson auk formanns fjárlaganefndar og framsögumanns, Haraldar Benediktssonar.