146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:18]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Eins og fram hefur komið er 8. mars í dag, alþjóðlegur baráttudagur kvenna. Tilgangur laga um húsmæðraorlof var á sínum tíma að lögfesta viðurkenningu á þjóðfélagslegu mikilvægi ólaunaðra starfa kvenna í samfélagi þar sem hallaði mjög á konur. Í dag getum við á Íslandi staðið nokkuð bein í baki, stært okkur af því að hér sé jafnrétti meira en gengur og gerist í heiminum, en það var aldeilis ekki árið 1960, það var ekki 1972, það var bara aldeilis ekki þegar þessi lög voru sett. Þessi lög eru sett inn í veruleika sem við, sem sitjum í þessum sal og erum flest, sýnist mér, fædd eftir gildistöku þessara laga, getum ekki einu sinni ímyndað okkur. Þetta er veruleiki þar sem sat í mesta lagi ein kona á stangli á þingi, þær urðu ekki þrjár fyrr en 1983. Þetta er veruleiki þar sem launamunur kynjanna var bara viðtekin staðreynd, ekkert sem þurfti að berjast gegn, þær voru annaðhvort heimavinnandi ólaunaðar húsmæður eða unnu láglaunastörfin sem karlar fengust ekki í.

Þeim hópi ákvað Alþingi að umbuna. Fyrir hálfri öld ákvað Alþingi að umbuna þeim hópi sem stóð vægast sagt höllum fæti í samfélaginu. Alþingi ákvað að umbuna þeim hópi með því að leyfa honum að lyfta sér upp. Ég hef talað við konur sem á sínum tíma fóru í Menntaskólaselið fyrir ofan Hveragerði, nokkrar saman, voru þar bara að slappa af fjarri skarkala borgarinnar, þurftu reyndar að hafa börnin með sér, en það var víst orlof þess tíma. Ekki gat kallinn passað þau. Ég sé ekki eftir peningum til að hjálpa láglaunahópum eða hópum fólks sem fær engin laun að lifa mannsæmandi lífi og hluti af því er að geta leyft sér að lyfta sér upp.

Ég tek náttúrlega undir þau sjónarmið flutningsmanna að þessi lög séu tímaskekkja. Þetta er risaeðla í lagasafninu, en þetta er risaeðla sem þarf að vera í því eitthvað áfram vegna þess einfaldlega að sá hópur sem nýtir sér þessa þjónustu, sá hópur sem þessi þjónusta var búin til fyrir, er enn til. Hversu margar þær eru vitum við ekki, það kemur ekki fram í málinu. Eldri konur sem hafa aldrei haft há laun, hafa kannski aldrei haft nein laun, lifa á rýrum ellilífeyri sem þær erfa eftir látinn mann til dæmis. Ætlum við að taka af þeim að geta farið í Menntaskólaselið og buslað aðeins í Varmá fyrir ofan Hveragerði? Ég veit það ekki. Mér finnst eitthvað þurfa að koma í staðinn.

Mér finnst við ekki geta lagt lögin niður og skilið þessar ekkjur eftir, skilið þær láglaunakonur eftir án þess að nokkuð komi í staðinn. Ég held að fyrir hverja og eina konu sem þarf á húsmæðraorlofi að halda sé ábatinn af orlofinu talsvert meiri en þær 30 milljónir sem sveitarfélög landsins leggja til, öll sveitarfélög landsins til samans. 30 milljónir á ári. Ég held að þeim svíði sá peningur minna en ábatinn fyrir eina einustu konu sem þarf þetta húsmæðraorlof er.

Ef við förum að meta þetta frumvarp út frá kostnaði og ábata þá held ég að við — köllum það ekki kostnað og ábata, köllum það gleði og vansæld. Er vansæld sveitarfélaganna þvílík að standa straum af þessum kostnaði, 30 milljónum ár ári, er vansældin þvílík að við megum stöðva þá litlu gleði sem við getum þó veitt láglaunakonum fyrri ára með því að bjóða þeim upp á húsmæðraorlof? Það er kannski erfitt að setja það inn í excelinn, en ég ímynda mér að svo sé ekki.

Ekki liggur fyrir fjöldi þeirra sem nýta sér þetta. Það liggur ekki fyrir aldur, hins vegar liggur fyrir að flutningsmenn telja að húsmæðraorlof sé augljóslega í andstöðu við jafnréttissjónarmið. Ja, ef við værum að setja þessi lög í dag, já, væntanlega, en þetta eru ekki lög sem eru sett til að takast á við veruleika ársins 2017. Þetta eru lög sem voru sett til að takast á við veruleika fyrir 40, 50 árum, veruleika sem er ekkert horfinn út úr lífinu. Þetta er veruleiki sem fjöldi kvenna lifir enn. Meðan svo er þurfum við að stíga varlega inn í þetta mál af því að það að afnema þessi litlu réttindi sem konum með litlar eða engar tekjur voru veitt er ekki skref í jafnréttisátt, þó að okkur finnist asnalegt að einhverjar reglur eigi bara við konur en ekki karla. Þetta er bara að bregðast við raunveruleikanum sem var, í raunveruleikanum sem var og var ekki.

Í umsögn ASÍ kemur fram um málið síðast eða þarsíðast þegar það kom inn á þing, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir breytta tíma, þá því miður sýna kannanir að ennþá eru heimilisstörf og umönnun barna frekar á ábyrgð kvenna en karla.“

Það er eitthvað sem við sem samfélag í dag þurfum að takast á við. Það er stundum notað sem réttlæting á launamun kynjanna að konur séu ekki jafn verðmætur vinnukraftur og karlar vegna þess að þær séu alltaf að sinna heimili og börnum, detti frekar í fæðingarorlof en karlar og þess vegna sé ekki hægt að stóla jafn mikið á þær á vinnumarkaði. Mér hefði líka þótt meiri sómi að því, fyrst það er 8. mars, að við værum að ræða hugmyndir ríkisstjórnarinnar um jafnlaunavottun eða hvernig ætti að útrýma kynbundnum launamun, eins og hér hefur verið minnst á. Það eru ágætiskaflar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um þau mál.

Ég held nefnilega að frumvarp af þessu tagi, að afnema réttindi sem flutningsmönnum þykja konur hafa fram yfir karla, sé bara einfaldlega að byrja á röngum enda. Ég skal vera manna fyrstur til að henda þessum lögum um húsmæðraorlof á haf út um leið og ríkisstjórnin er búin að uppræta kynbundinn launamun. Þá skulum við skoða þetta. Um leið og búið er að gera almannatryggingakerfið þannig úr garði að við getum raunverulega sagt að hér búi enginn við skort, að fátækt sé útrýmt, þá skulum við taka þessi lög og brenna þau. Þá höfum við ekkert með þau að gera. En getum við virkilega sagt meðan enn eru á lífi, og í nokkur ár í viðbót, konur sem héldu samfélaginu uppi áratugum saman án þess að fá fyrir það greitt eða gegn smánarlega lágum launum, meðan þessar konur eru enn á meðal okkar, þá skulum við halda þessari risaeðlu sem lög um húsmæðraorlof eru, þá skulum við halda þeim í gildi. Ef við viljum afnema þau þá skulum við gera eitthvað annað, við skulum koma með eitthvað annað til að leyfa láglaunafólki, fólki sem aldrei hefur haft tekjur, fátæku fólki, að gera sér glaðan dag. En meðan sú er ekki raunin, meðan samfélagið er enn þá samfélag þar sem kynbundinn launamunur þekkist, þar sem vinnumarkaður er jafn kynskiptur og raun ber vitni, þá skulum við salta svona mál. Við getum verið fljót að afgreiða þetta þegar vinnumarkaðurinn er orðinn vinnumarkaður án launamunar kynjanna.