146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

orlof húsmæðra.

119. mál
[18:34]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja þessi andsvör mikið. Ég þakka þingmanninum fyrir innleggið. Mér dettur þá í hug „kúríósa“ sem ég sá í einhverjum sjónvarpsþættinum. Fyrst við erum að tala um sólarlagsákvæði á réttindum kvenna þá var það þannig eftir þrælastríðið í Bandaríkjunum, sem var háð á 19. öld, að ekkjur þeirra sem tóku þátt í stríðinu gátu haldið áfram að innleysa ekkjulífeyri frá bandaríska alríkinu. Síðasti tékkinn af þeirri sort var innleystur fyrir að mig minnir rétt um tíu árum, þannig að risaeðlur eru stundum lengi að deyja út. En það breytir því ekki að ef við ákveðum sem samfélag að taka utan um einhvern þjóðfélagshóp á einhverjum tímapunkti þá gerum við það bara eins lengi og þarf.